Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um Icesave

Reykjavík 10. janúar 2011

Tilvísun: 201012-0038

 

Efni: Frumvarp til laga um Icesave, 388. mál.

Alþýðusamband Íslands fagnar því að náðst hafi að nýju samningar um lausn Icesave málsins. Það er og hefur verið krafa miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, að uppbygging og barátta gegn atvinnuleysi hafi forgang í störfum stjórnvalda en dráttur á lausn Icesave málsins hefur torveldað og tafið endurreisn efnahags- og atvinnulífsins og nauðsynlegan aðgang Íslands að erlendum fjármálamörkuðum.

Alþýðusambandið hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að ljúka þurfi þessari deilu til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar áframhaldandi ágreinings. Afleiðingar tafanna á lausn málsins er erfitt að meta til fjár, tapaðra starfa, lakari hagvaxtar og hægari uppbyggingar en ljóst má vera að þær eru umtalsverðar. Ríkisstjórn og Alþingi verða að gera sér grein fyrir því að kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings hefur hrapað um allt að fjórðung, rúmlega 12.000 manns eru án atvinnu og fjöldi manns hefur yfirgefið landið í leit að öruggri afkomu. Þessi staða er með öllu ólíðandi og aðgerðaleysi óásættanlegt með öllu.

Nýr samningur um lausn Icesave deilunnar virðist hagstæðari en fyrri samningar, þó erfitt sé að meta það einhlítt. Ljóst er að styrking íslensku krónunnar hefur dregið verulega úr ábyrgð ríkisins og hærra mat á eignum gamla Landsbankans dregur einnig úr ábyrgð ríkisins. Einnig skiptir máli að náðst hafa lægri vextir á lánum Breta og Hollendinga, þó fyrri samningar hafi falið í sér möguleika á endurupptöku þeirra ákvæða.

Í þessu erfiða máli má segja að tekist hafi á tvö sjónarmið í samskiptum okkar við Breta og Hollendinga og reyndar alþjóðasamfélagið. Hvort er hyggilegra að fara fram með ákveðinni sjálfsgagnrýni gagnvart þeim atburðum sem hér urðu á fjármálamarkaði (án þess að hvika frá grundvallar hagsmunum okkar) en gera jafnframt kröfu um ákveðin skilningi alþjóðasamfélagsins á getu okkar til að axla afleiðingar af óábyrgu hátterni bankamanna (innlendra sem erlendra) eða setja fram ýtrustu kröfur og taka á þeim af hörku án þess að setja okkur inn í þann vanda sem viðsemjendur okkar eru í. Ljóst má vera að við völdum seinni leiðina og hún hefur skilað ákveðnum árangri, þó að hún hafi einnig skaðað ímynd okkar og stöðu á alþjóðavettvangi.

Alþingi og ríkisstjórn bera ábyrgð á að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að eyða óvissu og stuðla að uppbyggingu efnahags- og atvinnulífsins. Óvissan er búinn að valda okkur miklum búsifjum eins og m.a. margir af forsvarsmönnum stærstu fyrirtækja landsins í orku og hátækni hafa bent á. Lánstraust er minna, orðspor Íslands er laskað og miklir fjármunir og tækifæri hafa glatast vegna þess.

Því verður Alþingi að ljúka þessari erfiðu Icesave deilu sem allra fyrst til að auðvelda aðgengi að erlendu fjármagni til uppbyggingar og atvinnusköpunar og stuðla samhliða að frekari vaxtalækkun. Hið nýja samkomulag ætti að geta stuðlað að því.

Virðingarfyllst,

Gylfi Arnbjörnsson,

Forseti ASÍ