Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um húsnæðisbætur

Reykjavík, 17.08.2015
Tilvísun: 201507-0003

Efni: Frumvarp til laga um húsnæðisbætur, 788. mál
Alþýðusamband Íslands hefur lagt mikla áherslu á umbætur í húsnæðismálum og þá ekki síst í málefnum leigjenda. 41. þing ASÍ ályktaði um húsnæðismál í október 2014. Í ályktuninni segir m.a.:

„Aðgangur að öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum eru mannréttindi – ekki forréttindi. Stórir hópar í okkar samfélagi eru utanveltu á húsnæðismarkaði, hafa ekki bolmagn til kaupa á húsnæði, ráða ekki við að greiða markaðsleigu og fá ekki aðgang að félagslegu húsnæði. Þingfulltrúar krefjast því tafarlausra aðgerða í húsnæðismálum. Nú þegar þarf að koma á húsnæðisbótakerfi í stað vaxta- og húsaleigubóta sem taki mið af fjölskyldustærð og tekjum og tryggi sambærilegan stuðning við leigjendur og kaupendur húsnæðis.“

Til að liðka til fyrir gerð kjarasamninga gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um húsnæðismál þann 28.05.2015. Í yfirlýsingunni segir m.a.:
„Til að lækka frekar húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar á árunum 2016 og 2017. Grunnfjárhæð og frítekjumark verða hækkuð með hliðsjón af tillögum sem hafa verið til meðferðar hjá stjórnvöldum. Húsnæðisbætur og frítekjumörk munu taka mið af fjölda heimilismanna.“

Frumvarpið kemur að nokkru til móts við áherslur ASÍ í málefnum leigjenda. Stuðningur við leigjendur er aukinn og skref stigin í þá átt að jafna þann mun sem er á opinberum stuðningi við þá sem kaupa húsnæði og þá sem leigja. Þá er tekið tillit til fjölda þeirra sem búa í leiguhúsnæðinu og tekna þeirra. Frumvarpið er einnig í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28.05.2015. ASÍ mælir því með samþykkt frumvarpsins.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Ólafur Darri Andrason
hagfræðingur ASÍ