Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um heimild til staðfestingar á fjárfestingarsamningi við Algalíf Iceland ehf.

Reykjavík, 04.01.2014
Tilvísun: 201401-00-31

Efni: Frumvarp til laga um heimild til staðfestingar á fjárfestingarsamningi við Algalíf Iceland ehf., 375. mál.

Til umsagnar er frumvarp sem felur í sér heimildir ráðherra til staðfestingar á fjárfestingarsamningi ríkisins við Algalíf Iceland ehf. Þær ívilnanir sem birtast í fjárfestingarsamningnum byggja á lögum nr. 99/2010 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga en í þeim lögum var ráðherra veitt heimild til samninga sem fælu í sér ívilnanir í formi lægri skatta og opinberra gjalda með það að markmiði að örva fjárfestingu og efla samkeppnishæfni.
ASÍ leggur áherslu á mikilvægi nýfjárfestingar í hagkerfinu og geta ívilnanir gegnt mikilvægu hlutverki í því samhengi. Meðal gagnrýni á fyrrnefnd lög var að þau gengju ekki nægilega langt og hefðu þannig lítil áhrif á fjárfestingarákvörðun fyrirtækja. Á þeim forsendum var gengið lengra í fjárfestingarsamningum vegna iðnaðarsvæðis á Bakka þar sem aðilum bauðst meðal annars undanþága frá almennu tryggingargjaldi en í tilfelli Algalíf býðst félaginu 50% afsláttur á meðan lögin miðuðu við 20% afslátt.

Þótt ASÍ taki undir markmið fjárfestingarsamningsins, þá leggst það gegn því að tryggingagjaldið sé almennt notað sem skiptimynt í fjárfestingarsamningum og minnir á að hluta gjaldsins er ætlað að renna til starfsendurhæfingarsjóða, fæðingarorlofssjóðs og til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Ennfremur kemur ívilnunin til með að hafa áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja á svæðinu og í svipuðum greinum. Af þeim sökum má velta vöngum yfir því hvers vegna ekki er reynt að ganga lengra með afslætti eða frestun á tekjuskatti, sérstaklega í ljósi langs gildistíma fjárfestingarsamningsins.


Virðingarfyllst,
Róbert Farestveit,
hagfræðingur hjá ASÍ