Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík

Reykjavík, 3. desember 2009

Tilvísun: 200903-0021

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík, 394. mál.

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík, 394. mál.

Í meginatriðum felur frumvarpið í sér: 1) Heimild íslenskra stjórnvalda til að semja við Century Aluminum Company og Norðurál Helguvík ehf. um að hið síðarnefnda reisi og reki álver til framleiðslu á allt að 360.000 tonnum af áli á ári; og 2) undanþágur Norðuráls frá ýmsum almennum reglum vegna reksturs álversins. Helstu undanþágurnar snúa að frávikum frá reglum um skatta og gjöld. Í greinargerð með frumvarpinu er sagt að þessi frávik séu sambærileg þeim sem kveðið er á um í lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga og í Reyðarfirði og heldur minni ef eitthvað er.

Það er skoðun Alþýðusambands Íslands að nýta eigi þá orku sem landsmenn eiga til uppbyggingar á samkeppnishæfu atvinnulífi, hvort sem það er með uppbyggingu álbræðsla eða annarra atvinnugreina. Sambandið telur æskilegt að hlutverk ríkisins í þessu sé fyrst og fremst að skapa almennar forsendur til að atvinnulífið geti nýtt sér þessi tækifæri, að hafa eftirlit með því að skilyrði um umhverfismat, skipulag o.fl. séu uppfyllt og að tryggja að eðlilegur arður af auðlindum í eigu þjóðarinnar skili sér til eigenda sinna.

Færa má rök fyrir því að á síðustu árum hafi þörf fyrir ívilnanir til að draga að erlend stórfyrirtæki minnkað stórlega í ljósi almennra lækkana á sköttum sem lagðir eru á fyrirtæki hér á landi. Á hitt ber að líta að íslenskt efnahagslíf þarf sárlega á því að halda einmitt nú að allra leiða sé leitað til að spyrna gegn þeim samdrætti í verkefnum sem blasir við og slæmum atvinnuhorfum næstu ár. Ljóst er að ef fljótlega kemst kraftur í uppbygging álvers í Helguvík og tengdra orkumannvirkja myndi það að öllum líkindum geta létt verulega á atvinnuástandinu á árunum 2010-12 þegar framkvæmdir stæðu sem hæst.

Alþýðusamband Íslands styður því það frumvarp sem hér er til umsagnar.

Virðingarfyllst,
Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ