Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra f.h. ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðgangna undir Vaðlaheiði

Reykjavík, 07.05.2012
 

Efni: Frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra f.h. ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðgangna undir Vaðlaheiði, 718. mál

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við gerð kjarasamninga árið 2011 segir m.a.:
„Það er sameiginlegt markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að vinna bug á atvinnuleysi og skapa fjölbreytt og vel launuð störf hér á landi. Til þess að ná því markmiði þarf að örva fjárfestingu og skapa hvata til nýsköpunar í atvinnulífi, en jafnframt búa atvinnulífinu hagstæð starfsskilyrði með almennri efnahagsstefnu sem stuðlar að hagvexti. Stjórnvöld eru reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekenda um sókn í atvinnumálum, m.a. á forsendum áætlunarinnar um Ísland 2020. Markmið sóknar í atvinnumálum er að atvinnuleysi verði ekki hærra en 4-5% af vinnuafli í lok samningstímans. Til að það markmið náist þarf að auka hagvöxt umfram horfur að óbreyttu.
Við blasir að fjárfesting hefur verið of lítil á undanförnum árum og aðgerðir til að örva hagvöxt og skapa störf hljóta að beinast að því að auka arðbæra fjárfestingu hér á landi. Á síðasta ári var fjárfesting undir 200 milljörðum króna eða 13% af landsframleiðslu og hefur þetta hlutfall aldrei verið lægra. Það er markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að þetta hlutfall fari stighækkandi og verði ekki lægra en 20% í lok samningstímans en það jafngildir því að fjárfesting verði ekki lægri en 350 ma.kr. á ári.“

Í yfirlýsingunni er tekið fram að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng myndu að forfallalausu hefjast haustið 2011.
Alþýðusamband Íslands telur mikilvægt að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðargangna og þau kostuð með notendagjöldum. Almennur stuðningur er við göngin á svæðinu þ.e. í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og ekki ágreiningur um að þau verði fjármögnuð með veggjaldi. Vaðlaheiðargöng verða mikil samgöngubót og stytta leiðina frá Eyjafirði og austur um. Þá munu göngin leggja grunn að því að tengja saman Akureyri og Húsavík sem eitt atvinnusvæði. Göngin munu þannig styrkja grundvöll fyrirhugaðra orku- og stóriðjuframkvæmda í Þingeyjarsýslum og má telja að þau séu hluti af uppbyggingu innviða í tengslum við þær.

Það að göngin verða kostuð með veggjöldum er forsendan fyrir því að hægt sé að ráðast í gerð þeirra við núverandi aðstæður. Ljóst er að gerð jarðgangna sem kostuð verða með veggjöldum hefur ekki áhrif á aðrar framkvæmdir sem ráðist verður í skv. Vegaáætlun. Þannig er ljóst að Vaðlaheiðargöng sem kostuð verða með veggjöldum munu ekki seinka framkvæmdum sem eru á Vegaáætlun og einnig er jafn ljóst að það að hætta við Vaðlaheiðargöng á forsendum veggjalda mun ekki flýta fyrir því að hægt verði að ráðast í aðrar framkvæmdir.
ASÍ bendir á að áhætta ríkisins af gerð gangnanna er takmörkuð. Notendagjöldum er ætlað að standa undir kostnaði við gerð gangnanna að fullu. Í fyllingu tímans munu göngin renna til ríkisins án sérstaks endurgjalds. Fari svo að forsendur arðsemisútreikninganna gangi ekki að fullu eftir felur það ekki endilega í sér að þá muni kostnaður falla á ríkið heldur verður einfaldlega að lengja þann tíma sem gjöldin verða innheimt. Að sama skapi má stytta tímann sem gjöldin verða innheimt ef til að mynda umferð um göngin verður meiri en gert er ráð fyrir þannig að styttri tíma taki að ná upp í kostnað en áætlanir gera ráð fyrir.
ASÍ mælir því með samþykkt frumvarpsins.


F.h. Alþýðusambands Íslands
Ólafur Darri Andrason,
hagfræðingur ASÍ