Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu

Reykjavík, 28. nóvember 2006

 Efni: Umsögn ASÍ um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu.

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu.

Í febrúar sl. sendi ASÍ umsögn um drög að frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu til heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis. Þar var að finna nokkrar athugasemdir sem því miður hefur ekki verið tekið tillit til við endurskoðun á drögunum og nauðsynlegt er að árétta nú.

Frumvarpið hefur fjögur meginmarkmið: Í fyrsta lagi að mæla með skýrum hætti fyrir um grunnskipulag heilbrigðiskerfisins, í öðru lagi að setja forstöðumönnum skýran lagaramma til að stjórna heilbrigðisstofnunum eftir, í þriðja lagi að tryggja eftirlit með rekstri heilbrigðisþjónustu og í fjórða lagi að skilgreina hlutverk ráðherra við stefnumótun og tryggja að hann hafi á hverjum tíma fullnægjandi valdheimildir til að framfylgja stefnu sinni.

Hér að neðan verður gerð grein fyrir afstöðu ASÍ til frumvarpsdraganna m.t.t. ofannefndra meginmarkmiða.

Grunnskipulag

ASÍ hefur sett fram tillögu um að tekið verði upp „valfrjálst stýrikerfi“ sem stýri aðgangi sjúklinga frá heilsugæslu að sérgreinalæknum.

Sú stefna sem mörkuð er í frumvarpinu að heilsugæslan verði að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga (3. gr.) er í samræmi við þessa tillögu. Það sama má segja um þá viðleitni í frumvarpsdrögunum að skilgreina sérstaklega almenna heilbrigðisþjónusta og sérhæfða (4. gr.).

Í frumvarpsdrögin vantar hins vegar ákvæði um að þessi stefna njóti forgangs umfram önnur hugsanleg markmið. ASÍ telur nauðsynlegt að kveðið verði á um það með skýrum hætti í frumvarpinu að stjórnvöld séu skuldbundin til að skipuleggja heilsugæsluna sem grunneiningu kerfisins með það að markmiði að stýra sjúklingum um heilbrigðiskerfið.

Stjórnun / verkaskipting

ASÍ hefur sett fram tillögu um að verkaskiptingu milli heilsugæslu, sjúkrahúsa og sérgreinalækna eigi að skýra út frá þeirri grunnhugsun að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Í því sambandi sé nauðsynlegt að stórefla heilsugæsluna. Einnig þurfi að endurskoða verkaskiptingu sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna annars vegar og sjúkrahúsa hins vegar.

Þær greinar frumvarpsins sem miða að því að skýra stöðu forstjóra heilbrigðisstofnana (8.-13. gr.) eru í samræmi við þessar tillögur. Þær eru einnig vel til þess fallnar að draga fram ábyrgð stjórnenda og stuðla að betri rekstri heilbrigðisstofnana.

Í frumvarpið vantar hins vegar ákvæði um stöðu þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem starfa bæði sem atvinnurekendur á eigin stofum og sem opinberir starfsmenn á heilbrigðisstofnunum. ASÍ telur nauðsynlegt að kveðið verði á um það í frumvarpinu að settar verði reglur um réttarstöðu starfsmanna sem starfa bæði sem atvinnurekendur og sem opinberir starfsmenn og um viðkomandi stofnun.

Rekstur

ASÍ hefur sett fram tillögur um að ný rekstrarform verði þróuð í heilbrigðiskerfinu. Fjölbreytni gefi meiri möguleika á því að bregðast við breyttum aðstæðum í samfélaginu. Nauðsynlegt sé þó að tryggja með opinberum stöðlum og eftirliti að gæði þjónustu verði ávallt fullnægjandi og að allir hafi jafnan aðgang að henni. Einnig þurfi að draga skörp skil um hvaða eignar- og rekstrarform sé heimilt að nota í kjarnaþjónustu heilbrigðiskerfisins.

Þær greinar frumvarpsins sem miða að því að treysta eftirlitshlutverk landlæknis með heilbrigðiskerfinu (23.-26. gr.) koma að nokkru leyti til móts við þessar tillögur.

Í frumvarpið vantar ákvæði um hvaða eignar- og rekstrarform sé heimilt að nota í kjarnaþjónustu heilbrigðiskerfisins. ASÍ telur nauðsynlegt að kveðið verði á um það í frumvarpinu að undir engum kringumstæðum megi setja sjúkrahús, sem skilgreind eru í 4. gr. frumvarpsins sem grunnþjónusta, undir skilmála markaðskerfisins þar sem hagnaðar- og viðskiptasjónarmið eru grundvöllur starfseminnar.

ASÍ vill vekja athygli á að til að tryggja eðlilega framkvæmd útboðsheimildar ráðherra (29. gr.) kann að vera nauðsynlegt að heilbrigðisþjónusta sé að einhverju leyti undanþegin samkeppnislögum með formlegum hætti.

 Stefnumótun

ASÍ er hlynnt því að heimildir stjórnvalda til að hrinda í framkvæmd heilbrigðisstefnu séu styrktar.

Þær greinar frumvarpsins sem kveða á um að ráðherra fari með umboð ríkisins til samningsgerðar eru í samræmi við þessa afstöðu (3. og 27. gr.). Ennfremur greinar er kveða á um gæði heilbrigðisþjónustu (24. gr.) og um form og efni samninga (28. gr.).

Í frumvarpinu er hins vegar ekki gerður nægjanlega skýr greinarmunur á „kaupendum“ og „seljendum“. ASÍ telur nauðsynlegt að kveðið verði á um það í frumvarpinu að framsal samningsumboðs til heilbrigðisstofnana (skv. 30. gr.) leiði ekki til þess að kaupendahlutverk stjórnvalda færist á hendur fleiri aðila.

 f.h. Alþýðusambands Íslands,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir 
hagfræðingur