Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum

Reykjavík: 16.4. 2014
Tilvísun: 201404-0003

Efni: Frumvarp til laga um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum, 338. mál.

Alþýðusamband Íslands gerir ekki athugasemdir meginefni þessa frumvarps. Gerðar eru hins vegar athugasemdir við ákvæði 6.gr. þess.

Ákvæði 1.mgr. 6.gr. um gengistryggingu innheimtubóta er óskýrt og gefur tilefni til réttarágreinings. Eðlilegra er að lögin geymi einfalt ákvæði um bótafjárhæð í íslenskum krónum með heimild ráðherra til árlegrar endurskoðunar að gefnum skýrum forsendum.

Það er jafnframt álit ASÍ að um of hátt gjald sé að ræða. Sá kostnaður sem kröfuhafi verður fyrir felst ekki í öðru en einfaldri tilkynningu sem fjarri lagi kostar 6.700.- kr. Nú þegar eru dráttarvextir hér á landi mun hærri en gengur og gerist og eiga að gera kröfuhafa jafnsettan og ef ekki hefði til vanskila komið og raunar gott betur en það.

ASÍ telur einnig að sú fjárhæð sem lögð verður til verði hámarksfjárhæð en ekki lágmarksfjárhæð eins og frumvarpstextinn gerir ráð fyrir. Slík lágmarksákvæði um refsikennd viðurlög í viðskiptum eru andstæð hagsmunum neytenda og opna fyrir óeðlilega gjaldtöku í viðskiptum. Jafnframt er það álit ASÍ að eðlilegt sé aðilar á samkeppnismarkaði geti keppt um hylli viðskiptavina m.a. með ólíkum og hagstæðari viðbrögðum við greiðsludrætti og því rétt að ákvæðið mæli ekki fyrir um lágmarksfjárhæð heldur heimild til gjaldtöku allt að tiltekinni hæfilegri fjárhæð.

Loks er gerð sú athugasemd að við 2.mgr. 6.gr. að skýrt verði tekið fram að innheimtubætur skuli ætíð koma til frádráttar innheimtukostnaði en ekki að þær geti gert það. Skuldari á aldrei í beinu viðskiptalegu sambandi við innheimtuaðila. Aðeins innheimtuaðili og kröfuhafi eiga í viðskiptasambandi og það viðskiptasamband byggir á því að kröfuhafi skuli skaðlaus af vanskilum skuldara. Það skaðleysi endurspeglast m.a. í ákvörðun dráttarvaxta og í þeirri þóknun sem innheimtuaðila er áskilin úr hendi skuldara. Verði innheimtubætur þessar lögfestar liggur beint við að lækka beri dráttarvexti.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ