Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga

Reykjavík 03.05 2010

Mál: 201004-0018

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga (560 mál ).

Alþýðusamband Íslands fagnar því að frumvarp þetta sé fram komið og styður mjög eindregið samþykkt þess.

Þann 16. maí 1994 skilaði nefnd um Greiðsluaðlögun tillögum til þáverandi félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar var lagt til, að skapað yrði samofið félagslegt og fjárhagslegt úrræði til þess að mæta skuldavanda einstaklinga og fjölskyldna. Lagt var til að slíkt úrræði tæki jöfnum höndum til veðkrafna og annarra krafna og að því mætti m.a. beita þannig, að heimilt væri að fara inn í samningsbundna skilmála veðkrafna innan verðmætis veðsettra eigna með það fyrir augum að gera þær kröfur greiðanlegar með skilmálabreytingum. Frá þeim tíma og fram á árið 2008 voru ítrekað lögð fram lagafrumvörp um greiðsluaðlögun eins og nánar er rakið í almennum athugasemdum í greinargerð þessa frumvarps. Þau frumvörp gerðu ýmist ráð fyrir að greiðsluaðlögun tæki ekki til veðskulda innan verðmætis eigna eða tæki almennt ekki til veðskulda. Það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi samræmist hvað þetta varðar þeim tillögum sem settar voru fram 1994 og er það fagnaðarefni.

Fyrir frumvarpi af þessum toga hefur ASÍ barist um langt skeið og hvetur Alþingi til þess að flýta afgreiðslu þess sem mest má. Fyrirsjáanlegt er, að þeir varnargarðar sem byggðir voru með frestun uppboða og öðrum bráðabirgðaaðgerðum bresti á næstu vikum og mánuðum og nauðsynlegt að þá séu til staðar virk og sanngjörn úrræði eins og þau sem birtast í þessu lagafrumvarpi.

Áskilinn er réttur til þess að koma að frekari athugasemdum við þingmál þetta eftir því sem meðferð þess á Alþingi miðar.

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ