Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl.

Reykjavík 03.04.2014
Tilvísun: 201403-0024


Efni: Umsögn um frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl. 315. mál

Með frumvarpinu er lagt til að bensíngjald, olíugjald, kílómetragjald og gjald af áfengi og tóbaki auk umhverfis- og auðlindaskatta lækki um 1 prósentustig.
Ein helsta forsenda kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn var að verðbólga verði lág þannig tryggja megi stöðugleika og aukinn kaupmátt launafólks.
Síðastliðið haust og í byrjun vetrar voru boðaðar hækkanir á gjöldum ríkisins og margra sveitarfélaga sem engan veginn samrýmdust stöðugu verðlagi. Ljóst var að þessar hækkanir hefðu nokkur áhrif til hækkunar á verðlagi. Samkvæmt breytingum á vísitölu neysluverðs í upphafi árs nam hækkun verðlags vegna þessara hækkana um 0,3% og þar af voru um 0,2% vegna hækkana á álögum ríkisins. Verkalýðshreyfingin skoraði á opinbera aðila að falla frá fyrirhuguðum hækkunum og stuðla þannig að samningum á forsendum hóflegrar verðbólgu. Fulltrúar Reykjavíkurborgar sáu mikilvægi þess að allir tækju höndum saman í þessum efnum og riðu á vaðið með því að falla frá flestum áformuðum hækkunum. Flest önnur sveitarfélög fylgdu í kjölfar Reykjavíkurborgar og féllu frá hækkunum.

Í bréfi sem fjármálaráðherra ritaði forseta ASÍ skömmu fyrir undirritun kjarasamninga áréttaði hann mikilvæg verðstöðugleika og lýsti því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að við samþykkt kjarasamninga yrðu endurskoðaðar til lækkunar breytingar á gjöldum sem samþykktar höfðu verði við afgreiðslu fjárlaga til að stuðla að því að verðlagsáhrif sem af þeim leiða verði minni en ella. Um helmingur aðildarfélaga ASÍ samþykkti umrædda kjarasamninga og lá sú niðurstaða fyrir þann 22. janúar sl. Umræddu frumvarpi um lækkun hluta þeirra opinberu gjalda sem hækkuð voru um áramót var dreift á Alþingi þann 13. febrúar og tekið til umræðu á þingfundi rúmum mánuði síðar, eða þann 18. mars og vísað til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Alþýðusambandið telur með öllu óásættanleg sú töf sem orðið hefur á málinu. Í því birtist áhugaleysi stjórnvalda á að styðja við forsendur aðila vinnumarkaðarins sem skapað geta grundvöll fyrir auknum efnahagslegum stöðugleika hér á landi.

Hvað varðar einstaka þætti frumvarpsins er það mat Alþýðusambandsins að mun æskilegra hefði verið að taka til endurskoðunar miklar hækkanir á gjaldskrám í heilbrigðisþjónustunni sem tóku gildi um áramót. Þær hækkanir koma illa við viðkvæma hópa auk þess sem leiða má að því líkur að lækkanir á umræddum krónutölugjöldum og gjaldskrám sem í sumum tilvikum er brot úr krónu muni skila sér illa út í verðlag til neytenda og því hafa takmörkuð áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs.
Í greinagerð með frumvarpinu er áætlað að lækkun umræddra gjalda geti lækkað vísitölu neysluverðs um 0,08%. Að mati ASÍ er hér um talsvert ofmat að ræða og ólíklegt að áhrif aðgerðarinnar á vísitölu neysluverðs verði meiri en 0,04-0,05% að því gefnu að þau skili sér að fullu til lækkunar á verðlagi.

F.h. Alþýðusambands Íslands,
Henný Hinz
hagfræðingur