Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (viðurlög, heimavinnsla og aðilaskipti að greiðslumarki í mjólkurframleiðslu)

Reykjavík 18.08.2010

Tilvísun: 201007-0002

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (viðurlög, heimavinnsla og aðilaskipti að greiðslumarki í mjólkurframleiðslu), 662. mál.

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (viðurlög, heimavinnsla og aðilaskipti að greiðslumarki í mjólkurframleiðslu), 662. mál.

Í stefnu ASÍ í atvinnumálum sem miðstjórn sambandsins samþykkti 16.5.2007 er lögð áhersla á nauðsyn þess að endurskoða núverandi styrkjakerfi í landbúnaði og hverfa frá framleiðslutengdum styrkjum og taka þess í stað upp óframleiðslutengdar greiðslur eða eins og segir í stefnunni: „Miklir möguleikar eru fyrir áframhaldandi þróun landbúnaðar og matvælaiðnaðar í landinu, t.d. með markaðsstarfi á grundvelli ímyndar um hreinleika og hollustu. Til að losa sem best um þessa sköpunarkrafta þarf að endurskoða núverandi styrkjakerfi í landbúnaði. Stefna ber að umbreytingu úr tollvernd, framleiðslutengdum styrkjum og opinberri verðlagningu yfir í beinar óframleiðslutengdar greiðslur...“ Í gildandi búvörusamningi eru stigin varfærin skref í að draga úr framleiðslutengdum styrkjum til bænda og auka þess í stað óframleiðslutengdar greiðslur. Verði frumvarpið að lögum er verið að styrkja og festa frekar í sessi kerfi framleiðslutengdra greiðslna til bænda. Það er bæði í andstöðu við framangreinda stefnu ASÍ og þá þróun sem átti sér stað með gildandi búvörusamningi.

Þá telur Alþýðusamband Íslands mikilvægt að auka samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur til hagsbóta fyrir neytendur og bændur. Með því má stuðla að lægra verði til neytenda, bættum vörugæðum, aukinni nýsköpun og vöruþróun og tryggja betur atvinnufrelsi bænda. Samkvæmt 2.gr. frumvarpsins varðar það rekstraraðila afurðarstöðvar háum fjársektum „...að taka við mjólk frá framleiðanda sem ekki hefur greiðslumark og markaðsfæra hana á innanlandsmarkaði. Sama gildir ef rekstraraðili afurðastöðvar markaðsfærir innan lands afurðir úr mjólk sem er umfram greiðslumark framleiðanda án samþykkis framkvæmdanefndar búvörusamninga...“ ASÍ leggst gegn slíkum refsiákvæðum þar sem þau eru til þess fallin að þrengja enn frekar að samkeppni á framangreindum markaði. Því ber þó að fagna að samkvæmt greininn er svigrúm bænda til heimavinnslu mjólkurafurða aukið.

Samkvæmt greinargerð frumvarpsins var það samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands og Samtök afurðastöðva. ASÍ telur óeðlilegt að fulltrúar hagsmuna neytenda skuli ekki hafi ekki fengið aðkomu að þeirri vinnu. ASÍ telur mikilvægt að breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum séu unnar í sem bestri sátt við þá sem málið varðar, þ.e. fulltrúa bænda, afurðarstöðva og fulltrúa hagsmuna neytenda. Í þeirri vinnu þarf að gæta bæði að hagsmunum neytenda og bænda.

Í ljósi þess sem að framan er rakið leggst ASÍ því gegn því að frumvarpið verði að lögum.