Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um fjölmiðla

Reykjavík, 1.12.2010

Tilvísun: 201011-0053

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um fjölmiðla, 198. mál

Alþýðusamband Íslands vísar til fyrri umsagnar um frumvarp til laga um fjölmiðla, 423. mál á 138. löggjafarþingi þar sem fram kemur að Alþýðusambandið styðji markmið frumvarpsins sem er að stuðla að tjáningarfrelsi, frelsi til upplýsinga, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum sem og að efla vernd neytenda á þeim vettvangi.

Alþýðusamband Íslands gerir athugasemd við skilgreiningu á hugtakinu fjölmiðill í 13. tl. 2. gr. frumvarpsins en þar segir:

„Fjölmiðill er hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Til fjölmiðla teljast m.a. dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar.“

Í ljósi þess að skilgreiningin afmarkar umfang þeirra einstaklinga og lögaðila sem bundnir verða af lögunum, verði frumvarpið samþykkt á Alþingi, er mikilvægt að engum vafa sé undirorpið hverjir falla undir skilgreininguna. Fjöldi lögaðila og einstaklinga halda úti margvíslegum netmiðlum eða tímaritaútgáfu t.d. Háskóli Íslands (hi.is), Alþýðusamband Íslands (asi.is) og Hagstofa Íslands (hagstofa.is) sem miðla með reglubundnum hætti m.a. til almennings efni sem lýtur ritstjórn að einhverju leyti. Sé það ætlunin að fella slíka vefmiðla undir hugtakið fjölmiðill þyrfti að taka það fram með skýrari hætti a.m.k. í athugasemdum við ákvæðið þó draga megi í efa að slík niðurstaða sé eðlileg eða nauðsynleg. Slík ákvörðun myndi leiða til allverulegrar takmörkunar á heimildum þessara aðila til starfrækslu netmiðla sinna, m.a. í ljósi ákvæðis 24. gr. frumvarpsins um setningu reglna um ritstjórnarlegt sjálfstæði en í mörgum tilfellum, hjá þeim lögaðilum sem vikið var að hér að framan, er engin efnisleg þörf á reglum sem eiga að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði efnisstjóra gagnvart eigendum miðilsins.

Í 50. og 51. gr. frumvarpsins er fjallað um ábyrgð fjölmiðlaþjónustuveitanda á greiðslu stjórnvaldssekta, fésekta og skaðabóta sem starfsmanni hans kann að vera gert að greiða á grundvelli ákvæðanna. Í athugasemdum segir að reglan varni því að fjölmiðlamenn stundi óheppilega sjálfsritskoðun með það í huga að birting á umdeildu efni kunni að reynast þeim fjárhagslega þungbær og efli þannig tjáningarfrelsi og stuðli að lýðræðislegri umræðu. Sérstaklega er tekið fram að fjölmiðlaþjónustuveitendur geti eflt gildi hennar enn frekar með því að kveða á um það í reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði að starfsmenn þeirra verði ekki endurkrafðir að þessu leyti.

Nauðsynlegt hefði verið að kveða skýrlega á um það í frumvarpinu að óheimilt væri að endurkrefja starfsmenn vegna greiðslu fjölmiðlaþjónustveitenda á slíkum sektum og bótum, eða a.m.k. þannig að einbeittur ásetningur starfsmanna þyrfti að vera fyrir hendi til að brjóta lög. Markmið ákvæðisins nær ekki fram að ganga nema tryggt sé að starfsmenn beri í reynd ekki ábyrgð á greiðslum þessum gagnvart atvinnurekendum.

Þá bendir Alþýðusamband Íslands á að í 24. gr. frumvarpsins er fjölmiðlaþjónustuveitendum gert skylt að setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sinna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Í slíkum reglum skal m.a. fjallað um skilyrði áminningar og brottvikningar viðkomandi efnisstjóra og blaða- og fréttamanna.

Með þessum hætti er lögfest í raun, að uppsagnir starfsmanna fjölmiðlaþjónustuveitenda sem sinna fréttum og fréttatengdu efni, skuli rökstuddar með formlegum hætti. Sú stefna samræmist þeirri stefnu ASÍ, að uppsagnir launafólks á Íslandi skuli almennt rökstuddar. Ofangreint miðar því máli í rétta átt og hvetur ASÍ Alþingi til þess að vinna að því að sams konar ákvæði verði lögtekið hér á landi um allt launafólk.

Alþýðusamband Íslands gerir ekki frekari athugasemdir við frumvarpið að sinni en áskilur sér rétt til að frekari athugasemda ef efni standa til þess.

Virðingarfyllst,

f. h. Alþýðusambands Íslands

Dalla Ólafsdóttir

lögfræðingur