Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um Ferðamálastofu

Reykjavík: 26. apríl 2018
Tilvísun: 201804-0014


Efni: Frumvarp til laga um Ferðamálastofu, 485. mál

Alþýðusambandið tekur undir nauðsyn þess að endurskoðuð sé löggjöf um Ferðamálastofu, ferðamálaráð og hluta leyfisveitinga í ferðaþjónustu, þar sem m.a. hlutverk Ferðamálastofu er skýrt sem leyfisveitanda og eftirlitsaðila með leyfisskyldri starfsemi í ferðaþjónustu og varðandi aðra þætti sem tilteknir eru í 3. gr. frumvarpsins.

Hér á eftir verður fjallað um nokkur atriði sem Alþýðusambandið telur vanta í frumvarpið eða þarfnast lagfæringa.

Leyfisskylda erlendra ferðaþjónustuaðila
Alþýðusambandið gerir alvarlegar athugasemdir við að tækifærið nú sé ekki notað til að fjalla um og gera kröfur til þess að erlendir ferðaþjónustuaðilar sem eru með starfsemi hér á landi verði leyfisskyldir í samræmi við 7. og 8. gr. frumvarpsins með sama hætti og íslenskir ferðaþjónustuaðila.
Fyrir liggur að íslenskar ferðaskrifstofur og önnur ferðaþjónustufyrirtæki þurfa í dag að keppa við fjölda erlendra ferðaþjónustuaðila sem skipuleggja og selja ferðir um Ísland, Erlend fyrirtæki sem eru mörg með umsvifamikinn rekstur hér á landi með eigin fararstjóra og „leiðsögumenn“ og jafnvel eigin ökutæki, án þess að lúta þeim reglum sem íslenskum fyrirtækjum er ætlað að virða eða greiða skatta eða uppfylla aðrar skyldur hér á landi, s.s. varðandi tryggingar. Þessi staða hefur leitt til þess að erlend fyrirtæki stunda undirboð á markaði fyrir Íslandsferðir, skapa sér óásættanlegt samkeppnisforskot gagnvart innlendum fyrirtækjum og ógna afkomu starfsmanna þeirra.

Krafa ASÍ er að tryggt verði eins og kostur er að innlend ferðaþjónustufyrirtæki búi ekki við lakari rekstrar- og samkeppnisskilyrði en erlend.
Í framangreindu ljósi leggur Alþýðusamband Íslands til að öllum þeim aðilum sem bjóða upp á eða selja skipulagðar ferðir hér á landi, jafnt erlendum sem innlendum, verði gert skylt að sækja um og fá starfsleyfi í samræmi við 7. og 8. gr. frumvarpsins og beri sömu skyldur skv. lögunum.
Jafnframt er nauðsynlegt að hugað verði sérstaklega að skráningu þessara fyrirtækja og skattskyldu í því fylgt eftir með gagnkvæmri upplýsingamiðlun og samstarf Ferðamálastofu og skattayfirvalda vegna starfsemi erlendra ferðaþjónustuaðila. Sama gildi um Samgöngustofu hvað varðar rekstrarleyfi til fólksflutninga og Vinnumálastofnun varðandi réttindi útsendra starfsmanna. Þetta atriði er að vísu lítillega ávarpað í 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins, en með ófullnægjandi hætti, bæði hvað varðar efni og framsetningu, auk þess sem það á aðeins við um leyfisskylda aðila eins og frumvarpið stendur í dag.

Öryggisáætlanir og áhættumat, eftirlit og eftirfylgni
Í 10. gr. frumvarpsins um öryggisáætlanir og áhættumat segir í 1. mgr.:
Hver sá sem hyggst bjóða upp á eða selja skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis ber ábyrgð á því að útbúa skriflega öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferðar, óháð því hvort viðkomandi selur ferðina beint til ferðamanns eða með milligöngu annars aðila. Öryggisáætlun skal ávallt vera til skrifleg á íslensku og ensku. Óheimilt er að bjóða til sölu, kynna eða miðla á nokkurn hátt slíkum ferðum ef öryggisáætlun liggur ekki fyrir.
Þá er í 2. mgr. fjallað um áhættumat og tilgang þess.
Bent hefur verið á að þrátt fyrir að erlendum ferðaþjónustuaðilar séu samkvæmt frumvarpinu ekki leyfisskyldir, þá beri þeim eins og öðrum að hafa öryggisáætlun og gera áhættumat. Þannig sé a.m.k. að einhverju leyti verið að fella starfsemi erlendra fyrirtækja undir reglu laganna og eftirlit Ferðamálastofu.
Hér skal bent á að eingöngu er verið að fjalla um öryggisáætlanir og áhættumat og kemur því engan vegin í staðin fyrir leyfisskylduna og það sem henni fylgir.
Því til viðbótar er rétt að benda á að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir virku eftirliti og eftirfylgni með því að öryggisáætlanirnar séu gerðar og áhættumatið framkvæmt. Í 7. mgr. 10 gr. segir:
„Ferðamálastofa hefur eftirlit með því að öryggisáætlanir séu til staðar og séu uppfærðar eins og þörf er á. Ferðamálastofu er heimilt að kalla eftir öryggisáætlun. Ef öryggisáætlun reynist bersýnilega ófullnægjandi eða ekki hefur verið útbúin öryggisáætlun skal Ferðamálastofa veita aðila kost á að bæta úr innan hæfilegs frests sem skal að lágmarki vera 14 dagar. Ef aðili bætir ekki úr innan frestsins er Ferðamálastofu heimilt að leggja á dagsektir skv. 19. gr. þar til úr er bætt.“

Samkvæmt frumvarpinu verður ekki séð að Ferðamálastofu eða öðrum aðilum, svo sem lögreglunni, sé ætlað að hafa virkt eftirlit úti á vegum með því að ferðaþjónustuaðila hafi gert öryggisáætlun eða framkvæmt áhættumat. Það er því ljóst að eftirlit með framkvæmdinni verður mjög takmarkað og mun lítið eða ekkert ná til erlendra ferðaþjónustuaðila að óbreyttu, þar sem Ferðamálastofa hefur engar upplýsingar um þá, sem er forsenda þess að hægt sé að kalla eftir áætlununum um öryggismál.
Væntanlega gildir allt það sama og bent er á hér að framan þegar kemur að virku eftirliti úti á vegum með því að aðilar hafi fullgild starfsleyfi.

Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusambandið til að sett verði inn í V. kafla frumvarpsins skýrar heimildir lögreglu til að ganga eftir því við eftirlit úti á vegum að ferðaþjónustuaðilar hafi tilskilin leyfi og gert öryggisáætlun.

Að lokum
Alþýðusamband Íslands styður að frumvarpið verði að lögum að því tilskildu að bætt verði úr þeim ágöllum sem fjallað hefur verið um hér að framan.

Fylgiskjal

Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ