Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla

Reykjavík 30.8 2016
Tilvísun: 201608-0030

Efni: Frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla, 779. mál

Alþýðusamband Íslands styður það markmið frumvarpsins að auka gegnsæi og ábyrgð félagasamtaka sem gefa sig út til þess að starfa til almannaheilla og sem vilja njóta tiltekinnar réttarstöðu gagnvart stjórnvöldum og trúverðugleika gagnvart samfélaginu.

Ein af niðurstöðum úr því nefndarstarfi sem gerð er grein fyrir í athugasemdum var sú að „Löggjöfin mætti ekki verða íþyngjandi fyrir félagasamtök og gæta yrði að því að þrengja ekki að möguleikum félagasamtaka til að ákvarða sitt innra skipulag.“ Það frumvarp sem óskað er umsagnar um er nokkuð ítarlegt og mælir einnig fyrir um strangar refsingar í 9. kafla vegna tiltekinna brota og er fyrirmynd þess sótt í hlutafélagalög.

Um er að ræða ramma utan um frjáls félagasamtök sem njóta verndar stjórnarskrár. Ætla má að því ítarlegri sem ramminn sé aukist líkur á því að lögin kunni að geta stangast á við stjórnarskrá en þessi félög gegna ekki sérstöku lögbundnu hlutverki líkt og á við um stjórnmálaflokka, stéttarfélög, lífeyrissjóði o.fl.

Sértaka athygli vekja m.a. í þessu efni heimildir stjórnvalda í 35.gr. til þess að slíta félagi hafi það m.a. „... brotið verulega gegn skilgreindum tilgangi samkvæmt samþykktum sínum.“. Sama á við um ákvæði 9. kafla. Þar er í b.lið 45. gr. og í 46.gr. mælt fyrir um allt að tveggja ára fangelsi vegna brota á því sem lítur m.a. að innri málefnum félags auk þess sem almenn hegningarlög mæla fyrir um refsingar fyrir sumt af því sem þarna er fjallað er um. Um sérrefsilöggjöf er því að ræða sem lítur að starfsemi frjálsra félagasamtaka af þeirri ástæðu einni að þau fá skráningu sem almannaheillafélög.

Það er álit ASÍ að vel fari á því að Alþingi hyggi vel að því hvort þessu frjálsa félagsformi sé ekki sniðinn of þröngur stakkur í fyrirliggjandi frumvarpi og bendir í því sambandi m.a. á eftirfarandi ákvæði þess: a. liður 10.gr., 2.mgr. 13.gr., 1.mgr. 22.gr., 2.tl. 1.mgr. 23.gr., 1.mgr. 26.gr., 27.gr., 28.gr. og 7.kafla í heild sinni.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ