Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi

Reykjavík: 24.2 2017
Tilvísun: 201702-0017

Efni: Frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, 128. mál

Alþýðusamband Íslands tekur undir þær athugasemdir sem Sjálfsbjörg og MND félagið gera varðandi réttarstöðu fatlaðra og hreyfihamlaðra. Undanþáguheimild 2. mgr. 18. gr. er að mati ASÍ allt of opin auk þess sem engar skýringar eða leiðsögn um túlkun hennar er að finna í greinargerð, m.a. hvað varðar aðgang að almenningssamgöngum. Verði ákvæðið að lögum óbreytt má ætla að það geti farið gegn ákvæðum stjórnarskrár og gegn þeim sáttmálum sem Ísland hefur undirgengist og sem varða réttarstöðu fatlaðra.

ASÍ telur jafnframt að auka þurfi við ákvæði 5. gr. og greinagerð með því. Eins og ákvæðið er nú, er öll útfærsla á leyfisskilyrðum geymd til útfærslu í reglugerð. Þegar greinargerð með 5. gr. er lesin er enga leiðsögn að finna til framkvæmdavaldsins og vísað þess í stað til reglugerðar EB nr. 1071/2009 án þess að gera nánari grein fyrir efni hennar. Það er spurning hvort framkvæmdavaldinu verði eftir lagasetninguna heimilt að sækja stoð í efni reglugerðar beint í framangreinda gerð EB skv. almennu og opnu umboði í lögunum en gerðin er ekki hluti greinargerðar með frumvarpinu. ASÍ telur annars vegar að verulega þurfi að breyta greinargerð með 5. gr. þ.a. að meginefni sömu umfjöllunar í reglugerð EB komi þar fram. Hins vegar telur ASÍ að sérstaklega eigi að taka fram í 5. gr. að það teljist hluti skilyrða um fjárhagsstöðu og orðspor, að umsækjandi virði skyldur sínar gagnvart starfsmönnum m.a. hvað varðar kjarasamninga og laun, skil iðgjalda og skatta, stundi ekki svarta atvinnustarfsemi eða kennitöluflakk. Komi þetta fram með skýrum hætti lagatexta eða greinargerð má eins og gert er ráð fyrir, út færa þau skilyrði nánar í reglugerð. Loks er, hvað 5. gr. varðar, vakin athygli á því að frumvarpið notar hugtakið orðspor meðan fyrrgreind EB reglugerð notar hugtakið „orðstír“. Æskilegt er að halda sama orðfæri til þess að forðast misskilning.

Loks vekur ASÍ athygli á því, að erlendir ferðaþjónustuaðilar stunda farþegaflutninga hér á landi án tilskilinna leyfa eða tilkynninga. Hingað koma á þeirra vegum hópferðabifreiðar með erlendum bifreiðastjórum sem síðan eru staðsettar hér á landi um lengri eða skemmri tíma. Þessar bifreiðar eru síðan notaðar eftirlitslaust til þess að aka mismunandi hópum farþega um landið rétt eins og innlendir leyfisskyldir aðilar með staðfestu hér á landi gera.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ

[1] http://www.efta.int/sites/default/files/documents/legal-texts/eea/other-legal-documents/translated-acts/icelandic/i32009R1071.pdf