Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms um uppreist æru

Reykjavík 12.11 2018
Tilvísun: 201810-0025

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms um uppreist æru, 222. mál

Með frumvarpinu er tekist á við þau vandamál sem risið hafa vegna ógagnsærrar og tilviljanakenndrar framkvæmdar um uppreist æru og er það vel.

Alþýðusamband Íslands vill taka eftirfarandi fram um einstakar lagabreytingar þar sem réttaráhrif dóma falla sjálfkrafa niður að fimm árum liðnum frá afplánun.

Lög nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Gerðardómar geta falið í sér endanlega niðurstöðu um ágreining. Sem slíkir geta þeir haft afgerandi þýðingu um hagsmuni þeirra sem þá nota. ASÍ telur að sömu reglur eða svipaðar eigi að gilda um hæfisskilyrði gerðardómara eins og annarra sem fá í hendur mikilvægt hlutverk innan réttarvörslunnar eins og t.d. dómara og lögmanna.

Lög nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum. Svipuð sjónarmið og að ofan greinir eiga við hvað varðar reglur um matsmenn og jafnframt bent á að reglur einkamálalaga eru ófullkomnar um hæfi matsmanna og mest lagt þar upp úr þekkingu en ekki siðferði og svigrúm dómara til þess að meta hæfi þeirra skv. 66.gr. EML afskaplega takmarkað.

Lög nr. 79/2008 um endurskoðendur. Telja verður að ekki sé ástæða til þess að gera aðrar og minni kröfur til endurskoðenda en gerðar eru til lögmanna, sbr. breytingar sem lagðar eru til á lögum nr. 77/1998, þar sem starfsleyfi er háð einföldu skilyrði en sem víkja má frá að fenginni umsögn LMFÍ.

Lög nr. 95/2008, innheimtulög. Vísað er í þessum efni til þess sem kemur fram hvað varðar breytingar á lögum nr. 79/2008.

Lög nr. 87/1998 um eftirlit með fjármálastarfsemi. Með þessari tillögu er dregið verulega úr hæfisskilyrðum. Fyrir er skýrt ákvæði um að stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins skuli „hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða þeim sérlögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila.“ Samhliða því að afnema kröfu um óflekkað mannorð er þeim sem gerst hafa sekir um um alvarleg brot á hegningarlögum, lögum á sviði fjármálamarkaðar eða félaga eða þolað íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem einstaklingar eða forsvarsmenn fyrirtækja, veitt sjálfkrafa hæfi að liðum 10 árum eftir hafa verið dæmdir. Þessi lagabreyting er í engu samræmi við aðrar lagabreytingar sem lagðar eru til í sama frumvarpi sbr. t.d. tillögu um breytingar á 3.mgr. 22.gr. laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir og lögum nr. 110/2007 um kauphallir þar sem óflekkað mannorð er fjarlægt en tiltekin brot útiloka áfram frá hæfi. Skýring á því hvers vegna dregið er úr hæfi manna til þess að stýra Fjármálaeftirlitinu er ekki rökstudd í greinargerð.


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ