Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna aðgerða gegn skattundanskotum og skattsvikum

Reykjavík: 30. maí 2018
Tilvísun: 201805-0009

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna aðgerða gegn skattundanskotum og skattsvikum, 561. mál

Alþýðusambandið tekur undir að mikil nauðsyn er á að endurskoða löggjöf sem miðar að aðgerðum gegn skattaundanskotum og skattsvikum. Ekki síst hvað varðar erlend fyrirtæki í ferðaþjónustu og starfsemi þeirra hér á landi.
Alþýðusambandið harmar að tækifærið skuli ekki notað til að nálgast viðfangsefnið með heildstæðum hætti með það að markmiði að koma í veg fyrir að erlend fyrirtæki njóti samkeppnisforskots á íslensk fyrirtæki með undirboðum og skattasniðgöngu eða skattsvikum. Slíkt hefur bein og óbein neikvæð áhrif á atvinnu og kjör íslensks launafólks. Jafnframt leiðir slíkt til þess að íslenskt samfélag hefur ekki eðlilegra tekjur af þeirri starfseminni sem fram fer hér á landi.

Í þessu samhengi vill ASÍ benda á mál nr. 468 sem nú er til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis, þar sem gerð er tilraun til að taka á þeim þætti sem snýr að vinnumarkaðinum með því að skilgreiningunni á útsendum starfsmönnum nái til starfsmanna allra erlendra þjónustufyrirtækja sem hér eru með starfsemi, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
Þá skal áréttuð gagnrýni sem Alþýðusambandið hefur sett fram á mál nr. 485 um Ferðamálastofu þar sem segir m.a.:
„Alþýðusambandið gerir alvarlegar athugasemdir við að tækifærið nú sé ekki notað til að fjalla um og gera kröfur til þess að erlendir ferðaþjónustuaðilar sem eru með starfsemi hér á landi verði leyfisskyldir í samræmi við 7. og 8. gr. frumvarpsins með sama hætti og íslenskir ferðaþjónustuaðila.
Fyrir liggur að íslenskar ferðaskrifstofur og önnur ferðaþjónustufyrirtæki þurfa í dag að keppa við fjölda erlendra ferðaþjónustuaðila sem skipuleggja og selja ferðir um Ísland, Erlend fyrirtæki sem eru mörg með umsvifamikinn rekstur hér á landi með eigin fararstjóra og „leiðsögumenn“ og jafnvel eigin ökutæki, án þess að lúta þeim reglum sem íslenskum fyrirtækjum er ætlað að virða eða greiða skatta eða uppfylla aðrar skyldur hér á landi, s.s. varðandi tryggingar. Þessi staða hefur leitt til þess að erlend fyrirtæki stunda undirboð á markaði fyrir Íslandsferðir, skapa sér óásættanlegt samkeppnisforskot gagnvart innlendum fyrirtækjum og ógna afkomu starfsmanna þeirra.

Krafa ASÍ er að tryggt verði eins og kostur er að innlend ferðaþjónustufyrirtæki búi ekki við lakari rekstrar- og samkeppnisskilyrði en erlend.
Í framangreindu ljósi leggur Alþýðusamband Íslands til að öllum þeim aðilum sem bjóða upp á eða selja skipulagðar ferðir hér á landi, jafnt erlendum sem innlendum, verði gert skylt að sækja um og fá starfsleyfi í samræmi við 7. og 8. gr. frumvarpsins og beri sömu skyldur skv. lögunum.“

Þá bendir Alþýðusambandið á að með þessu frumvarpi er aðeins að litlu leyti komið til móts við ábendingar og tillögur sem settar voru fram af starfshópi fjármálaráðherra um skattskyldu af erlendri ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi, 13. júlí 2017. Vísast einnig til umsagnar Samtaka ferðaþjónustunnar, dags. 25. maí, í þessum efnum.
Loks vísast til umsagnar ríkisskattstjóra, dags. 25. maí 2017, þar sem bent er á nauðsynlegar lagfæringar á efnisreglum varðandi samsköttun yfir landamæri, alvarlegar ábendingar settar fram varðandi útleigu starfsmanna, gerviverktöku og mikilvægi þess að raunverulegur launagreiðandi/notendafyrirtæki verði gert ábyrgt fyrir skattskilum. Þetta er í samræmi við það sem lagt er til varðandi launagreiðslur með svokallaðri keðjuábyrgð í máli nr. 468, sem vísað er til fyrr í þessari umsögn.
Við þetta má síðan bæta að oft virðist óljóst í framkvæmd hvenær fyrirtæki teljast hafa starfsstöð hér á landi skv. skattalögum eða ekki. Um það vitnar nokkur fjöldi ferðaþjónustuaðila sem hefur nokkuð umfangsmikla starfsemi hér landi, gera út bílaflota, eru með aðstöðu fyrir búnað og verkstæði, auk þess að hafa fjölda starfsmanna í vinnu, sbr. minnisblað ASÍ sem fylgdi umsögn sambandsins um mál nr. 485 um Ferðamálastofu.

Tillaga
Alþýðusamband Íslands leggur ríka áherslu á að tækifærið nú verði notað til að nálgast viðfangsefnið með heildstæðum hætti með það að markmiði að erlend fyrirtæki, þ.m.t. fyrirtæki sem leigja út starfsmenn og stunda „gerviverktöku“, njóti ekki með neinum hætti samkeppnisforskots gagnvart íslenskum fyrirtækjum eða ógni atvinnu og kjörum starfsmanna þeirra.
Lagt er til að nú þegar verði kallaðir saman fulltrúar þeirra aðilar sem málið varðar, þ.m.t. ríkisskattstjóra, Ferðamálastofu, Samgöngustofu, Tollstjóra, Vinnumálastofnunar, lögreglunnar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins. Verkefni þessara aðila verði að greina heildstætt stöðu og starfsemi erlendra fyrirtækja hér á landi, þær takmarkanir sem er að finna í núgildandi löggjöf og eftirliti og geri tillögur um nauðsynlegar úrbætur út frá þeim markmiðum sem lýst er hér að framan.

Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ