Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000 o.fl.

Frumvarpið snertir ekki með beinum hætti réttindi eða skyldur þeirra starfsmanna sem aðild eiga að aðildarfélögum ASÍ og eru því engar efnislegar athugasemdir gerðar við frumvarpið þó efni þess sé að líkindum umdeilt innan ASÍ líkt og víðar í samfélaginu.

Á það skal þó sérstaklega bent, að í c. lið, b. liðar 5.gr. og samsvarandi í 10.gr. frumvarpsins eru sett sérstök ákvæði um skilyrði áminninga og brottvikningar fréttamanna og blaðamanna. Í greinargerð kemur fram að reglurnar miði að því að útiloka, svo sem frekast er kostur, afskipti einstakra eigenda fjölmiðils af fréttaflutningi og annarri sjálfstæðri dagskrárgerð. Með þessum hætti er lögfest í raun, að uppsagnir frétta- og blaðamanna skuli rökstuddar með formlegum hætti. Sú stefna samræmist þeirri stefnu ASÍ, að uppsagnir launafólks á Íslandi skuli almennt rökstuddar og hefur ASÍ ítrekað lagt til að samþykkt ILO nr. 158 verði tekin í gildi hér á landi. Ofangreint miðar því máli í rétta átt og hvetur ASÍ Alþingi til þess að vinda bráðan bug að því að samskonar ákvæði verði lögtekin hér á landi um allt launafólk.

 

 

F.h. Alþýðusambands Íslands,

Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ