Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987

Reykjavík: 09.10.2014
Tilvísun: 201409-0023

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987, 102. mál

Sá hluti þessa frumvarps sem varðar félagsmenn aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands með beinum hætti er 5. gr. frumvarpsins sem kveður á um að atvinnubílstjórar á stórum ökutækjum skuli undirgangast endurmenntun á fimm ára fresti.

Umrædd 5. gr. frumvarpsins felur í sér verulegt inngrip í atvinnuréttindi atvinnubílstjóra og þrátt fyrir að Alþýðusamband Íslands sé á þeirri skoðun að krafa þessi sé úr hófi, verður að horfast í augu við það að Ísland er skuldbundið í gegnum EES samninginn að taka þessa reglu inn í landsrétt. Frumvarpið skýrir ekki með nánari hætti hvað í þessari kröfu um endurmenntun felst og væri það að mati Alþýðusambands Íslands, með vísan í 75. gr. stjórnarskrárinnar, æskilegra ef frumvarpið væri ítarlegra um það efni.

Að öðru leyti og til áréttingar framangreinds vísar Alþýðusamband Íslands hvað 5. gr. frumvarpsins varðar, til þeirra sjónarmiða fram koma í skilabréfi starfshóps um endurmenntun atvinnubílstjóra frá 4. mars 2013 til þáverandi Innanríkisráðherra.

Hvað frumvarpið varðar, að undanskildu ofangreindu, gerir Alþýðusamband Íslands ekki efnislegar athugasemdir.

Virðingarfyllst,
Halldór Oddsson.
Lögfræðingur hjá ASÍ