Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Vísinda- og tækniráð

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um Vísinda- og tækniráð, 744. mál.

Í frumvarpinu er lagt til að svið stefnumótunar Vísinda- og tækniráðs verði víkkað svo það nái til nýsköpunar og atvinnuþróunar, auk vísinda og tækniþróunar eins og nú. Þá er gerð tillaga um að fulltrúum í ráðinu verði fjölgað um tvo sem forsætisráðherra skipi án tilnefningar. Í greinargerð með frumvarpinu segir að miðað skuli við að þeir komi úr atvinnulífinu og hafi reynslu eða sérþekkingu sem nýst geti við hagnýtingu rannsókna.

Athugasemdir ASÍ:

·Víkkun sviðs stefnumótunar

ASÍ styður þá tillögu að svið stefnumótunar Vísinda- og tækniráðs verði víkkað. ASÍ vill þó vekja athygli á að með því að takast á hendur stefnumótun í atvinnuþróun verður meiri þörf en áður innan ráðsins fyrir samræmingu milli ólíkra ráðuneyta. Heildstæð stefnumótun í atvinnuþróunarmálum gerir kröfu um öfluga samþættingu atvinnu-, efnahags- og félagsmála. Of lítil áhersla á efnahagsþáttinn getur leitt til þess að tíðar og kröftugar sveiflur í gengi þurrki út allan ávinning í atvinnuþróun jafnóðum. Of lítil áhersla á félagslega þáttinn getur leitt til þess að úrelt byggða-mynstur og skortur á menntun við hæfi hamli atvinnuuppbyggingu.

·Fjölgun í ráðinu

ASÍ telur að þar sem talað er um að tveir nýir fulltrúar í Vísinda- og tækniráði eigi að koma komi úr atvinnulífinu þá sé eðlilegt að annar þeirra komi úr röðum atvinnurekenda og hinn úr röðum launafólks. Þá telur ASÍ einnig eðlilegt að þessir tveir nýju fulltrúar séu tilnefndir af viðeigandi heildarsamtökum – til að leggja áherslu á að þeir eru fulltrúar heildarhagsmuna. Útfæra mætti þetta þannig að forsætisráðherra óskaði eftir tilnefningu heildarsamtakanna á grundvelli ákveðinnar sérþekkingar sem sóst væri eftir í ráðið.


Samantekt

Alþýðusambandið mælir með því að það frumvarp sem hér er til umsagnar verði samþykkt, en vonast jafnframt til að við afgreiðslu þess verði tekið tillit til ofannefndra athugasemda.

 

F. h. Alþýðusambands Íslands,

Stefán Úlfarsson

Hagdeild ASÍ