Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld

Reykjavík, 24.04.2015
Tilvísun: 201504-0007


Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, 692. mál

ASÍ er fylgjandi álagningu veiðigjalda og telur að sú aðferðafræði sem tekin var upp á síðasta fiskveiðiári að notast við reiknaða afkomustuðla hafi verið til bóta frá fyrra kerfi.
Í fyrirliggjandi frumvarpi eru stigin fleiri skref í rétta átt en líkt og áður hefur verið bent á í umsögnum Alþýðusambandsins eru veikleikar sem fyrr óvissa um raunverulegt verð sjávarafurða sökum gallaðrar verðmyndunar og notkun gamalla upplýsinga við útreikninga. ASÍ leggur áherslu á að ákvörðun veiðigjalda byggi á nýjustu mögulegu upplýsingum og mun notkun tveggja ára gamalla upplýsinga óhjákvæmilega fela í sér ákveðin vandamál í jafn sveiflukenndri atvinnugrein og sjávarútvegi.

Afstaða ASÍ til frumvarpsins byggir í megindráttum á stefnu sambandsins í atvinnumálum en í henni er lögð áhersla á að:

„Á grundvelli stefnu um nýtingu og verndun náttúruauðlinda geta stjórnvöld veitt heimild til nýtingar á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar gegn gjaldi að því tilskyldu að nýtingarrétturinn sé tímabundinn eða að honum megi breyta“.
„Gegn leyfum komi endurgjald; í fyrsta lagi vegna kostnaðar ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlinda (þjónustugjald); í öðru lagi til að tryggja þjóðinni hlutdeild í umframarði sem nýting auðlinda í þjóðareign skapar (auðlindagjald); og í þriðja lagi, þar sem það á við,til að tryggja hagkvæma nýtingu (umhverfisskattur).“

Í 5. gr. d. er veiðigjald ákvarðað sem 35% af reiknigrunni botnfisks, og 35% af reiknigrunni uppsjávarfisks, og er veiðigjaldið jafnað niður á stofna samkvæmt ákvörðuðum afkomuígildum. Áætlað er að veiðigjöld nemi 10,9 milljörðum kr. og komi til með að skila 9,4 milljörðum kr. í tekjur eftir að tekið hefur verið tillit til frádráttar.

Alþýðusambandið hefur áður bent á það í umsögnum að það telji veiðigjöld lágt ákvörðuð. Þetta á sérstaklega við í ljósi sterkrar stöðu sjávarútvegs og hafa lítil rök verið færð fyrir lækkunum veiðigjalda undanfarin ár. Horfur í sjávarútvegi eru hagfelldar um þessar mundir, en á sama tíma fæst ekki séð að veiðigjald tryggi þjóðinni sanngjarna hlutdeild í umframarði af nýtingu auðlindarinnar né að framkvæmdar séu allar nauðsynlegar rannsóknir og eftirlit með nýtingu auðlindarinnar.

f.h. ASÍ
Róbert Farestveit,
hagfræðingur