Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, með síðari breytingum

Reykjavík, 04.01.2014
Tilvísun: 201405-0001


Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, með síðari breytingum, 568. mál
Til umsagnar er frumvarp til laga um breytingar á lögum um veiðigjöld sem koma á til framkvæmda á fiskveiðiárinu 2014/2015. ASÍ lýsir óánægju með hversu stuttu fyrir þinglok frumvarpið er lagt fram og þann skort á samráði sem var við undirbúning þess. Þá er einnig vakin athygli á þeim skamma fresti sem veittur var til umsagnar á þessu mikilvæga máli.
Alþýðusambandið er fylgjandi álagningu veiðigjalda og byggir sú afstaða á stefnu ASÍ í atvinnumálum þar sem áhersla er lögð á að fyrir leyfi til nýtingar á sameiginlegum náttúruauðlindum þjóðarinnar komi endurgjald. En í stefnunni segir að endurgjald sé:
„.....í fyrsta lagi vegna kostnaðar ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlinda (þjónustugjald); í öðru lagi til að tryggja þjóðinni hlutdeild í umframarði sem nýting auðlinda í þjóðareign skapar (auðlindagjald); og í þriðja lagi, þar sem það á við, til að tryggja hagkvæma nýtingu (umhverfisskattur).“
ASÍ telur breytingu á aðferðafræði við útreikning afkomustuðla vera skref í rétta átt en veikleiki aðferðarinnar er óvissa um raunverulegt verð sjávarafurðanna, sem kunna að hafa skekkjandi áhrif á framlegðarútreikninga.
ASÍ telur mikilvægt að ákvörðun veiðigjalda byggi á nýjustu upplýsingum og mun sú aðferðafræði að miða ákvörðun veiðigjalda við afkomu ársins 2012 óhjákvæmilega fela í sér ákveðna skekkju. Hinsvegar er það skoðun ASÍ að ekki hafi verið færð rök fyrir þeirri miklu lækkun veiðigjalda sem birtist í frumvarpinu, en að óbreyttu er útlit fyrir að tekjur af veiðigjöldum verði um 8 ma. eða tæpum 1,8 milljörðum lægri en áætlað var í fjárlögum. Ákvörðunin vekur því athygli í ljósi sterkrar afkomu sjávarútvegs, erfiðrar stöðu ríkisfjármála og þeirrar staðreyndar að veiðigjöld teljast alla jafna hagkvæm gjaldheimta.
Hafa þarf í huga að almenna veiðigjaldið stendur ekki undir nauðsynlegum kostnaði við rannsóknir og eftirlit með nýtingu auðlindarinnar og sérstaka veiðigjaldið skilar þjóðinni ekki sanngjarnri hlutdeild í auðlindarentunni. Í því samhengi má nefna að þrátt fyrir sögulega lágt raungengi og almennt góða stöðu sjávarútvegs er einungis gert ráð fyrir að atvinnugreinin greiði þjóðinni 3 milljarða fyrir aðgang að hennar verðmætustu auðlind. Ennfremur hafa stofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki í rannsóknum og eftirliti búið við fjársvelti á sama tíma og stjórnvöld hafa talið það forgangsatriði að lækka veiðigjöld úr 13,8 ma. kr. í 9,8 ma. kr á yfirstandandi fiskveiðiári, og úr 9,8 ma. kr. í 8 ma. kr. á því næsta.
ASÍ leggur til að þetta frumvarp verði lagt til hliðar og þess í stað verði unnið frekar í málinu í góðu samráði við þá aðila sem sæti áttu í „sáttanefndinni“ svonefndu. Mikilvægt er að sú vinna hefjist þegar þar sem stutt er í að næsta fiskveiðiár hefjist.

f.h. ASÍ
Róbert Farestveit
Hagfræðingur