Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vegabréf, nr. 136 22. desember 1998.

Frumvarpið felur að hluta í sér einföldun við útgáfu vegabréfa, jafnframt því sem leitast er við að aðlaga efni og form íslenskra vegabréfa að alþjóðlegum kröfum þar að lútandi. Allt er það til bóta.

Stefnt er að því jafnframt að fingraför vegabréfshafa komi fram í vegabréfi og verði varðveitt af útgefanda líkt og önnur gögn sem útgáfunni tengjast. Gagnagrunnur af þessu tagi er nýmæli. Í frumvarpinu er ekki skilgreint hvort fingraför teljist “viðkvæmar” persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og verndun persónuupplýsinga, eða hvort þær séu almennar persónuupplýsingar. Sá greinarmunur skiptir máli sbr. 2. kafla laganna. Í 2.mgr. 3.gr. laga nr. 77/2000 er og að finna víðtækar og mikilvægar undanþágur frá ákvæðum laga nr. 77/2000 en ákvæði 16., 18.–21., 24., 26., 31. og 32. gr. þeirra gilda ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem varða almannaöryggi, landvarnir, öryggi ríkisins og starfsemi ríkisins á sviði refsivörslu. Í frumvarpi því sem til umsagnar er, er ekki tekið fram hvort vinnsla Þjóðskrár á fingrafaraupplýsingum falli undir þessar undanþágur eða ekki.

Með umsögn þessari er athygli nefndarinnar vakin á því, að vandlega þarf að huga að þeim reglum sem ætlað er að gilda um þær upplýsingar sem varðveittar verða vegna útgáfu vegabréfa og jafnframt að ef til vill þurfi af þessu tilefni að skýra ákvæði annarra þeirra laga sem varða skráningu og notkun persónuupplýsinga sem í mörgum tilvikum varða viðkvæm og mikilvæg borgaraleg mannréttindi.

F.h. Alþýðusambands Íslands,

 

 

 

Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ