Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingasamninga

Mál þetta var áður flutt á 133 þingi og sætti þá harðri gagnrýni. Frumvarpið hefur ekki tekið neinum þeim breytingum sem áhrif hafa geti haft á umsögn ASÍ um efni þess.

ASÍ tekur undir þau sjónarmið frumvarpsins að skýr mörk þurfi að draga um öflun og notkun upplýsinga sem gefnar eru vegna töku persónutrygginga. ASÍ telur þau mörk skýrt dregin í gildandi löggjöf og mælir ekki með samþykkt þeirra breytinga sem lagðar eru til og fela í sér lögbundna heimild til þess að skilyrða töku persónutrygginga við að gefnar séu viðkvæmar persónuupplýsingar um aðila utan vátryggingarsambandsins.

Tilgangur frumvarpsins er að heimila vátryggjendum öflun upplýsinga um heilsufar fjölskyldumeðlima vátryggingataka og leita uppi ættlæga sjúkdóma sem áhrif geta haft á áhættu vátryggjanda. Íslenskar fjölskyldur eru samsettar með ýmsum hætti og ekki óalgengt að innan sömu fjölskyldu séu hálf- og óskyldir einstaklingar þó formleg tengsl geti verið með öðrum hætti og upplýsingar jafnvel ekki fyrirliggjandi um rétt blóðtengsl. Raunveruleg not af umbeðnum upplýsingum eru því lítil og í mesta lagi leiðbeinandi nema þeim fylgi mun ýtarlegri upplýsingar sem geta gengið langt inn á það svið sem borgararnir eiga kröfu á að njóta persónuverndar um. 82.gr. laganna eftir breytingu gengur því tvímælalaust gegn þeirri vernd sem stjórnarskrá og alþjóðlegir sáttmálar eiga að veita borgurunum og leggst ASÍ gegn þessari breytingu.

Sú breyting sem frumvarpið hefur tekið frá því það síðast var til umræðu eru ekki til bóta. Nú er gert ráð fyrir því að vátryggingataki skuli, ef hann getur, afla formlegs samþykkis foreldra sinna og systkina til þess að veita vátryggjanda viðkvæmar persónuupplýsingar um þau. Í greinargerð er vísað til þess eyðublaðs sem geri ráð fyrir að þessum spurningum sé svarað um ættingjana í heild en engin ákvæði þar að lútandi eru í frumvarpinu sjálfu. Ekkert er fjallað um afleiðingar þess ef einn eða fleiri ættingja er mótfallinn upplýsingagjöf en augljóst er að upplýsingar um hópinn í heild geta auðveldlega falið í sér upplýsingagjöf um viðkvæmar persónulegar upplýsingar um hvern og einn. Lagasetning með þessum hætti skapar fleiri vandamál en hún leysir og brýtur alvarlega gegn almennum reglum um persónuvernd.

Frumvarpið lítur fram hjá þeirri staðreynd, að vátryggjandi hefur allt aðra og sterkari stöðu en vátryggingataki og því mun þeirra upplýsinga sem vátryggjanda er heimilað að óska eftir alltaf verða aflað, hvað sem öllu líður. ASÍ leggur því til að lögin um vátryggingasamninga verði látin geyma bann við öflun upplýsinga með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

83.gr. laganna verður og að teljast veita vátryggjanda nægilega tryggingu fyrir að tryggingataki veiti þær upplýsingar sem hann getur og best veit: Þar segir: “Hafi vátryggingartaki eða vátryggður sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína skv. 1. mgr. 82. gr. og vátryggingaratburður hefur orðið ber félagið ekki ábyrgð.   Hafi vátryggingartaki eða vátryggður ella vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki telst óverulegt má fella ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta.   Við mat á ábyrgð félagsins skv. 2. mgr. skal litið til þess hvaða þýðingu vanrækslan hefur haft fyrir mat þess á áhættu, til þess hve sökin var mikil, með hvaða hætti vátryggingaratburður hefur orðið og til atvika að öðru leyti.”


F.h. Alþýðusambands Íslands,

_____________________
Magnús M. Norðdahl hrl., 
lögfræðingur ASÍ