Stefna ASÍ

  • Forsíða
  • Stefna ASÍ
  • Umsagnir um þingmál
  • Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum (framlenging gildistíma, hækkun á hlutfalli endurgreiðslu o.fl.)

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum (framlenging gildistíma, hækkun á hlutfalli endurgreiðslu o.fl.)

Reykjavík, 04.05.2016
Tilvísun: 201604-0025


Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum (framlenging gildistíma, hækkun á hlutfalli endurgreiðslu o.fl.), 618. mál

Óskað hefur verið eftir umsögn Alþýðusambandsins vegna ofangreinds frumvarps. Færa má rök fyrir því að framlenging á gildistíma muni styðja ennfremur við vöxt íslenskrar kvikmyndagerðar ásamt því að geta frekar byggt upp jákvæða ímynd Íslands og íslenskrar náttúru. Hinsvegar eru ekki færð sterk rök fyrir hækkun endurgreiðsluhlutfalls nema þau að hafa hlutfallið í samræmi við nýlegt endurgreiðslukerfi Norðmanna. Slík skattasamkeppni getur verið varasöm og vert að benda á að fleiri þættir ráða samkeppnishæfni aðrir en endurgreiðslur.
Óhjákvæmilegt er hinsvegar að vekja sérstaka athygli á því að þau verkefni sem falla undir endurgreiðslur eru gjarnan unnin á skömmum tíma, við mikið álag og langa vinnudaga. Þeir hópar sem að verkefnunum starfa eru svo gjarnan fjölþjóðlegir og hafa því litla þekkingu á almennum réttindum á íslenskum vinnumarkaði.
Í ofangreindu samhengi þykir ASÍ rétt að benda á að á Íslandi er við líði skipulagður vinnumarkaður og í gildi eru lög og kjarasamningar sem gilda um öll störf. Rökstuddur grunur er uppi um að algengt sé að lög- og kjarasamningsbundin réttindi starfsfólks er starfar við kvikmyndagerð séu brotin. Hvað það varðar vísast m.a. til innsendrar umsagnar Félags kvikmyndagerðarmanna við frumvarp þetta.
ASÍ telur óbreytt kerfi ekki ganga án þess að mörkuð sé stefna um þátt launafólks í starfseminni. Það er skoðun ASÍ að ráðstöfun úr sameiginlegum sjóðum eigi ekki rétt á sér til starfsemi þar sem kjarasamningsbrot og launaþjófnaður tíðkast. ASÍ telur því nauðsynlegt að skilyrða fjárstuðning ríkissjóðs á þann hátt að greiðslur séu háðar því að framleiðslufyrirtæki og undirverktakar þeirra virði réttindi launafólks. Slík breyting myndi stuðla að heilbrigðum kvikmyndaiðnaði til framtíðar og jafnframt tryggja með betri hætti skiptingu þess ávinnings sem af fjárstuðningnum hlýst. ASÍ skorar því á atvinnumálanefnd Alþingis að stuðla að slíkri breytingu og ASÍ lýsir sig jafnframt reiðubúið að koma með frekari hætti að slíkri vinnu sé þess óskað.

f.h. ASÍ
Róbert Farestveit, 
hagfræðingur

Halldór Oddsson,
lögfræðingur