Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað

Reykjavík 26.3.2019
Tilvísun: 201903-0033

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað (starfskostnaður), 107. mál

Í frumvarpinu er lagt til að feld verði niður heimild til greiðslu starfskostnaðar til þingmanna sem fasta mánaðarlega fjárhæð auk þess sem lagt er til að ráðherrar eigi ekki rétt á greiðslu starfskostnaðar frá Alþingi enda greiði ráðuneyti starfskostnað þeirra.

Alþýðusambandið tekur undir efni frumvarpsins og telur eðlilegt að starfskostnaður þingmanna sé einungis greiddur samkvæmt framlögðum reikningum. Núverandi fyrirkomulag sem heimilar að þingmenn fái greidda fasta mánaðarlega fjárhæð vegna starfskostnaðar gefur færi á að nýta starfskostnaðargreiðslu sem fasta launauppbót sem þingmenn eiga kost á án þess að á móti sé í reynd nokkur kostnaður. Þingmönnum er þar með gefið ákveðið sjálfdæmi um að ákvarða kjör sín sem er með öllu óeðlilegt og til þess fallið að gera starfskjör þingmanna óljós og ógagnsæ. Með sama hætti er óeðlilegt að ráðherra geti fengið greiddar starfskostnaðargreiðslur frá Alþingi vegna kostnaðar sem greiddur er af ráðuneytum þeirra og því einboðið að afnema rétt ráðherra til greiðslu starfskostnaðar frá Alþingi.

Alþýðusambandið styður því framgang frumvarpsins.

Virðingarfyllst,
Henný Hinz,
hagfræðingur ASÍ