Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, 
174. mál

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, 174. mál.

Frumvarpið leggur til ýmsar breytingar á afmörkuðum hlutum fiskveiðistjórnunarlaganna, m.a. á reglum um flutning aflamarks milli fiskveiðiára og skipa, um veiði- og vinnsluskyldu, um línuívilnun, um frístundaveiðar og um aflaheimildir í skötusel.

Rétt er að hafa í huga að nú situr að störfum sérstök nefnd með fulltrúum helstu hagsmunasamtaka um heildarendurskoðun á umræddum lögum. Hætt er við að þær breytingar sem frumvarpið leggur til setji þessa vinnu í uppnám enda skiptar skoðanir um þær flestar.

Í ljósi þessa telur ASÍ farsælast að nefndin um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða fái frið til að ljúka störfum sínum án þeirrar truflunar sem hlýst af því að leggja fram það lagafrumvarp sem hér er til umsagnar.

Virðingarfyllst,
Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ