Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991

Reykjavík: 18.10.2013
Tilvísun: 201310-0021

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991, 91. mál.

Með frumvarpinu er leitast við að mæta athugasemdum ESA sem gerðar hafa verið í kjölfar dóms Evrópudómstólsins í málinu nr. C-402/03 og lagt til að bein ábyrgð dreifingaraðila verði takmörkuð við að tjón verði rakið til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila. Þetta er gert með vísan til tilskipunar 85/374/ESB. Samkvæmt 10.gr. laga nr. 25/1991 fer um ábyrgð dreifingaraðila með sama hætti og framleiðanda en sú ábyrgð er án sakar sbr. 6.gr. þeirra.

Tilskipanir ESB ber að innleiða í landsrétt aðildarríkja ESB í fullu samræmi við þær sömu tilskipanir en þær geta einnig haft bein réttaráhrif í aðildarríkjum ESB að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Viðeigandi tilskipanir ESB skal jafnframt innleiða á Íslandi á grundvelli EES samningsins sbr. lög nr. 2/1993 en einnig ber að túlka lög og reglur hér á landi, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja sbr. 3.gr. sömu laga. Hæstiréttur Íslands hafnaði því með dómi í málinu nr. 79/2010, að víkja ákvæði 10.gr. laga nr. 25/1991 til hliðar með vísan til 3.gr. laga nr. 2/1993 en hefur látið ósagt hvort ákvæði 10.gr. laga 25/1991 stangist á við ákvæði tilskipunar 85/374/ESB. Með frumvarpinu fylgja ekki þau bréf þar sem ESA hefur vakið athygli á ósamræmi íslenskra laga og tilskipunar 85/375/ESB.

Með vísan til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 79/2010 og þess að ekki liggur fyrir formleg afstaða ESA til þess hvort og þá hvernig 10.gr. laga 25/1991 stangast á við tilskipun 85/374/ESB er nokkrum vandkvæðum bundið að taka afstöðu til þess hvaða breytingar á lögum nr. 25/1991 kunni að vera nauðsynlegar til þess að Ísland teljist uppfylla skilyrði EES samnings sbr. lög nr. 2/1993. Mikilvægt að er svo sé þegar EES réttur getur leitt til þess að dregið verði úr þeirri vernd neytenda sem þegar var í gildi þá er samningurinn um EES var gerður.

ASÍ vekur sérstaka athygli á því, að sú breyting sem lögð er til á 10.gr. laga nr. 25/1991 fellir skilyrðislaust niður hlutlæga ábyrgð dreifingaraðila. Mál Evrópudómstólsins nr. C-402/03 varðaði skaðabótakröfu neytanda sem keypt hafði egg í verslun (hjá dreifingaraðila) í Danmörku. Uppruni eggja var þekktur enda þau merkt framleiðanda. Málið var höfðað bæði gegn dreifingaraðila og framleiðanda og ábyrgð þeirra beggja var hlutlæg skv. dönskum lögum. Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að hlutlæg ábyrgð dreifingaraðila í þessu tilviki væri andstæð tilskipun 85/374/ESB.
Þessi dómur verður ekki túlkaður svo vítt, að fella beri niður hlutlæga ábyrgð dreifingaraðila í öllum tilvikum. Eðlileg túlkun hans getur ekki leitt til þess að lengra verði gengið en að fella niður hlutlæga ábyrgð dreifingaraðila þegar framleiðandi er innlendur og þekktur en um þá réttarstöðu fjallar dómur Evrópudómstólsins.

Jafnframt er vakin athygli á því, að 10.gr. laga 25/1991 eins og hún yrði eftir breytingar þær sem lagðar eru til, tekur skv. orðanna hljóðan til dreifingaraðila óháð þeirri stöðu sem þeir  geta tekið skv. 4.gr. sömu laga en hún getur verið með ýmsum hætti. Þar segir:

„Framleiðandi telst vera sá sem býr til fullunna vöru; einnig sá sem býr til hluta vöru eða lætur af hendi hráefni og sá er vinnur eða aflar afurða úr náttúrunni. Enn fremur hver sem lætur líta svo út að hann sé framleiðandi með því að setja nafn sitt á vöru, vörumerki eða annað auðkenni.
Auk þess skal hver sá teljast framleiðandi sem í atvinnuskyni flytur vöru til landsins í þeim tilgangi að selja hana, leigja eða versla með hana á annan hátt.
Dreifingaraðili telst hver sá sem í atvinnuskyni dreifir vöru án þess að teljast framleiðandi.
Geti tjónþoli ekki komist að því hver hefur búið til vöru sem framleidd er hér á landi eða flutt vöru til landsins skal sérhver dreifingaraðili hennar teljast framleiðandi.
Þetta á þó ekki við ef dreifingaraðili skýrir þeim sem fyrir tjóni varð án óþarfs dráttar frá nafni og heimilisfangi framleiðanda, innflytjanda eða þess sem afhent hefur dreifingaraðila vöruna, enda beri sá bótaábyrgð eftir lögum þessum og eigi varnarþing hér á landi.“

Nái breytingin fram óbreytt mun verulegur vafi rísa um það hvort dreifingaraðili beri hlutlæga ábyrgð þegar hann kemur fram skv. 2.mgr. eða 3.mgr. 4.gr. laga nr. 25/1991 eða þegar hann upplýsir um framleiðanda sem ekki á varnarþing hér á landi sbr. 4.mgr. sömu laga.

Til þess að hrinda í framkvæmd breytingum í kjölfar dóms Evrópudómstólsins í máli C-402/03 er hvorki nauðsynlegt né forsvaranlegt að breyta 10.gr. laga 25/1991 meira en þannig að bein ábyrgð dreifingaraðila falli niður ef framleiðandi er þekktur, hann hafi varnarþing hér á landi og greiðslufær. Slík takmarkaðri breyting hrindir í framkvæmd þeim athugasemdum sem draga má af dómi Evrópudómstólsins, hún rúmast fyllilega innan tilskipunar 85/374/ESB en gætir þess um leið og draga ekki úr neytendavernd hér á landi meira en brýna nauðsyn ber til vegna skuldbindinga Íslands skv. EES samningnum.

Lagt er því til, ef nefndin kýs að gera breytingar á annað borð, þannig að 10.gr. gildandi laga standi óbreytt (Dreifingaraðili ber ábyrgð á tjóni beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum) en við hana bætist ný málsgrein svohljóðandi:

Í þeim tilvikum þegar framleiðandi er þekktur, hann með varnarþing hér á landi og greiðslufær, takmarkast sú ábyrgð þó að svo miklu leyti sem tjónið verður rakið til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila í aðfangakeðjunni.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,  
lögfræðingur ASÍ