Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, með síðari breytingum (málsmeðferð o.fl.)

Reykjavík: 4.5 2017
Tilvísun: 201704-0042

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, með síðari breytingum (málsmeðferð o.fl.). 433 mál

Frumvarpið felur m.a. í sér takmarkanir á rétti borgaranna til þess að bera ágreining undir dómstóla fyrr en að lokinni tiltekinni stjórnsýslumeðferð. Þær skýringar sem settar eru fram í greinargerð með frumvarpinu rökstyðja ekki þá breytingu sem lögð er til.

Í Hrd. 760/2015 sem vitnað er til í greinargerð með frumvarpinu segir: „Þessi regla um rétt manna til aðgangs að dómstólum útilokar ekki að lög geti kveðið á um að tiltekinn ágreiningur verði ekki borinn undir dómstóla nema að undangenginni stjórnvaldsákvörðun um hann en allar slíkar takmarkanir á aðgangi manna að dómstólum verða þá að koma fram með skýrum hætti í lögum.“ Í dómi Hæstaréttar segir einnig um gildandi lög að tilgangur þeirra hafi ekki verið „…að takmarka aðgang aðila að dómstólum..“.

Þessi ummæli Hæstaréttar verða ekki skilin þannig að nægilegt sé að lög takmarki þennan rétt líkt og lagt er með þessu frumvarpi. Til þess að svo megi verða þarf málefnaleg rök og þess þarf að gæta að ekki sé gengið lengra en brýna nauðsyn beri til.

Í greinargerð er því haldið fram, að stjórnsýslumeðferð skuli ganga fyrir stjórnarskrárvörðum rétti til þess að bera mál undir dómstóla, réttlætist af því að stemma þurfi stigu við því að málum, sem eru til úrvinnslu hjá Sjúkratryggingum Íslands, verði stefnt til dómstóla sem valdi töfum og samfélagslegum kostnaði. Þessi fullyrðing er hvorki studd rannsóknum, tölum eða öðrum upplýsingum.

Í greinargerð er engar upplýsingar að hafa um málshraða á stjórnsýslustigi skv. gildandi lögum þannig að meta megi hvort sérstakur nýr 8 vikna frestur til svara skv. 4.gr. frumvarpsins muni bæta þar úr. Alls ekki er gefið að sá sérstaki frestur muni hafa nokkur áhrif á gagnaöflun og málshraða nema og þá því aðeins að brot á því ákvæði hafi bein áhrif á úrslit máls, bótakrefjanda í hag. Að öðrum kosti er augljóst að málshraðinn verður áfram sá sami og nú er.

ASÍ getur því ekki mælt með því að frumvarp til laga sem skerðir stjórnarskrárvarinn rétt borgaranna verði samþykkt með vísan til þeirra forsendna sem finna má í greinargerð en ef til vill mætti bæta úr þeim ágöllum með því að setja tiltekinn og sanngjarnan hámarks málsmeðferðartíma á stjórnsýslustigi.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ