Stefna ASÍ

 • Forsíða
 • Stefna ASÍ
 • Umsagnir um þingmál
 • Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna

Reykjavík: 27. apríl 2018
Tilvísun: 201804-0022


Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra og fleiri lögum, 468. mál

Frumvarp þetta var að meginstofni lagt fram á 146. löggjafarþingi 2016–2017 (þingskjal 626 – 457. mál) en hlaut þó ekki afgreiðslu á því þingi. ASÍ veitti umsögn um það frumvarp dags. 19. maí 2017. Þar sem mikilvægar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá fyrri gerð telur Alþýðusambandið rétt að veita umsögn að nýju þar sem nokkrir þættir úr fyrri umsögn eru áréttaðir auk þess sem fjallað er um þær breytingar sem orðið hafa frá fyrra frumvarpi.
Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar er unnið í ágætu samstarfi starfsmanna velferðarráðuneytisins og fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, auk fulltrúa Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar.
Alþýðusamband Íslands styður eindregið frumvarpið og þau markmið sem þar eru sett fram. Alþýðusambandið leggur ríka áherslu á að frumvarpið verði samþykkt á yfirstandandi þingi þannig að efni þess taki sem fyrst gildi og komi til framkvæmda.

Greinargerð 
Hér á eftir eru dregin fram nokkur meginatriði frumvarpsins eins og þau horfa við Alþýðusambandinu.

 1. Forsendur og meginmarkmið laga nr. 45/2007
  Það er meginregla á íslenskum vinnumarkaði að launafólk skuli njóta launa og annarra starfskjara í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi, óháð þjóðerni starfsmanna eða þeirra fyrirtækja sem þeir starfa fyrir, þ.m.t. erlendra þjónustufyrirtækja að meðtöldum starfsmannaleigum. Þetta er áréttað í 4. og 5. gr. núgildandi laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007 og í lögum um starfsmannaleigur nr. 139/2005.

  Á síðustu misserum og árum hafa undirboð og tengd brotastarfsemi farið vaxandi á íslenskum vinnumarkaði. Þar hafa erlend þjónustufyrirtæki sem koma tímabundið með starfsmenn hingað til lands, þ.m.t. starfsmannaleigur og innlendar starfsmannaleigur, verið mjög áberandi. 
  Algengustu brotin eru að laun og önnur starfskjör eru oft langt undir íslenskum kjarasamningum, yfirvinna ekki greidd og réttindi starfsmanna eru ekki virt hvað varðar orlof, veikindi og slys. Hér er vert að hafa í huga að starfsmenn þjónustufyrirtækja eiga að lágmarki að njóta launa skv. kjarasamningum og starfsmenn starfsmannaleiga sömu launa og annarra starfskjara og ef þeir væru í beinu ráðningarsambandi við íslenska notendafyrirtækið. 

  Almennt má segja að þessi fyrirtæki sem flest koma frá fátækum ríkjum Evrópu reyni að flytja með sér hingað til lands léleg kjör og takmörkuð réttindi á vinnumarkaði sem gilda í heimalandinu. Þá gildir um mörg þessara fyrirtækja að þau halda starfsmönnum sínum frá upplýsingum um laun og önnur starfskjör sem hér gilda, útvega þeim íbúðarhúsnæði sem er með öllu óásættanlegt og ala á ótta starfsmannanna við að sækja rétt sinn. Í alvarlegustu tilfellunum má fullyrða að þessi fyrirtæki stundi brotastarfsemi sem jaðra við eða er vinnumansal. 
  Samkvæmt úttekt og greiningu Alþýðusambands Íslands eru flest alvarlegustu brotin sem framin eru gagnvart launafólki á íslenskum vinnumarkaði tengd erlendum þjónustufyrirtækjum og starfsmannaleigum, erlendum og innlendum.

  Í framangreindu ljósi er mikilvægt að í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar er bætt inn markmiðsgrein í lög nr. 45/2007, þar sem réttindi starfsmanna eru áréttuð og skapa skilyrði til að það fáist betri yfirsýn yfir starfsemi fyrirtækjanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem hingað koma til starfa, en þar segir: 
  „Markmið laga þessara er að tryggja að laun og önnur starfskjör starfsmanna sem erlend fyrirtæki senda tímabundið hingað til lands í því skyni að veita þjónustu hérlendis séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á vinnumarkaði hér á landi. 
  Enn fremur er það markmið laga þessara að stjórnvöld geti fengið yfirsýn yfir eðli og umfang starfsemi erlendra þjónustuveitenda hér á landi og eftir atvikum í heimaríki þeirra, hvort sem þeir veita sjálfir þjónustu hérlendis sem sjálfstætt starfandi einstaklingar eða senda starfsmenn sína tímabundið hingað til lands til að veita hér þjónustu, í því skyni að tryggja að erlendir þjónustuveitendur starfi löglega hér á landi.“
  Sambærilega breytingu er einnig að finna varðandi lög um starfsmannaleigur nr. 139/2005.

  2. Gildissvið laga nr. 45/2007 um útsenda starfsmenn
  Í frumvarpinu er að finna tvær mikilvægar breytingar á núgildandi lögum sem varða annars vegar skilgreiningu á því hvaða fyrirtæki teljast þjónustufyrirtæki í skilningi laganna og hins vegar um skyldu sjálfstætt starfandi til að skrá sig hjá Vinnumálastofnun.
  a. Hvaða fyrirtæki teljast þjónustufyrirtæki í skilningi laganna
  Komið hafa upp fjölmörg dæmi á síðustu misserum, þar sem erlend þjónustufyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi hafa í skilningi laga nr. 45/2007 fallið undir gildissvið þeirra, þar sem þau hafa verið með starfsemi hér án þess að hafa „..samning við notendafyrirtæki um veitingu þjónustu hér á landi“. Þetta á m.a. við um tiltekna byggingastarfsemi, erlenda ferðaþjónustuaðila sem standa fyrir skipulögðum ferðum um Ísland og erlend rútufyrirtæki. Ljóst er að þessir aðilar hafa stundað alvarleg undirboð sem leitt hafa til óásættanlegra kjara starfsmanna þeirra og jafnframt skekkt samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja. Alþýðusambandið telur mjög mikilvægt að úr þessu verði bætt.
  Með þeirri breytingu sem gerð er á a-lið 1. mgr. 1. gr. laganna er bætt úr framangreindum vanda, þannig að nú verður ekki lengur gert að skilyrði að til staðar sé samningur við notendafyrirtæki. Í greinargerðinni með frumvarpinu eru tekin af öll tvímæli um að þessi breyting sé heimil. Þá segir: „Með þessu þykir tryggt að allir starfsmenn sem sendir eru tímabundið hingað til lands af erlendum fyrirtækjum í því skyni að veita þjónustu hérlendis njóti þeirra réttinda sem lög, reglugerðir og kjarasamningar sem gilda á íslenskum vinnumarkaði kveða á um meðan þeir starfa hér á landi óháð því hver kaupandi þjónustunnar er. Sem dæmi um þjónustu sem veitt er hér á landi án þess að um þjónustuna hafi verið gerður sérstakur þjónustusamningur við notendafyrirtæki í skilningi gildandi a-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna má nefna nýbyggingu íbúðarhúsnæðis og sumarbústaða og viðgerðir á slíku húsnæði sem og leiðsögn, fararstjórn og akstur með ferðamenn um landið í hópferðabifreiðum.“
  b. Upplýsingaskylda sjálfstætt starfandi einstaklinga
  Sú þróun hefur farið mjög vaxandi í nágrannalöndum okkar og annarsstaðar í Evrópu, að verið sé að búa störf launafólks í ýmiskonar þjónustu- og verktakastarfsemi og starfsmannaleiga, í búning verktöku, til að komast undar skyldum fyrirtækja og hafa þar með af launafólki margháttuð réttindi. Þess er einnig farið að gæta hér á landi. Skattaundanskot eru einnig tengd við þessa þróun. Í reynd er þarna um að ræða hreina gerviverktöku sem mikilvægt er að uppræta með öllu ráðum. Alþýðusambandið telur mjög mikilvægt að við þessari þróun verði brugðist af festu.
  Í frumvarpinu er tekið á þessu atriði með því að bætt er við 1. gr. laganna nýrri málsgrein þar sem segir:
  „Lög þessi gilda jafnframt um upplýsingaskyldu sjálfstætt starfandi einstaklings sem kemur sjálfur tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu. Þá gilda lög þessi um skyldur og ábyrgð notendafyrirtækja í tengslum við þjónustusamninga þeirra við fyrirtæki.“
  Þessu er síðan fylgt eftir annarsstaðar í frumvarpinu þar sem upplýsingaskyldan er nánar útfærð og Vinnumálastofnun falið að leggja mat á hvort um raunverulega verktakasamninga er að ræða eða gerviverktöku, auk annars.
 2. Skyldur erlendra þjónustufyrirtækja, þ.m.t. starfsmannaleiga, heimildir til eftirlits og viðurlög
  Með frumvarpinu er dregin lærdómur af þeirri reynslu sem fengist hefur af starfsemi erlendra þjónustufyrirtækja og starfsmannaleiga á íslenskum vinnumarkaði síðustu misseri og ár. Þær reglur sem gilda um starfsemi þessara fyrirtækja og réttindi starfsmanna þeirra eru treystar, þannig að tryggja megi að kjarasamningar og lög á íslenskum vinnumarkaði séu virt og koma megi í veg fyrir brotastarfsemi af hálfu framangreindra fyrirtækja. 
  Frumvarpið felur í sér nokkra mikilvæga þætti í þessum efnum:

  - Kveðið er á um að Vinnumálastofnun skuli í samstarfi við samtök aðila vinnumarkaðarins birta með aðgengilegum hætti upplýsingar um lög og reglur sem gilda á vinnumarkaði hér á landi ásamt því hvar megi nálgast gildandi kjarasamninga. Þannig er erlendum þjónustufyrirtækjum ekki stætt á því að skýla sér á bakvið skort á upplýsingum um framangreint efni.
  - Frumvarpið felur í sér ríkari skyldur en nú eru gagnvart erlendum þjónustufyrirtækjum, þ.m.t. starfsmannaleigum, um að þau veiti nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi sína bæði í heimalandinu og hér á landi til að hægt sé að ganga úr skugga um að þau starfi með lögmætum hætti og virði þau lög og reglur sem hér gilda, þ.m.t. réttindi starfsmanna sinna.
  - Lagðar eru skyldur á Vinnumálastofnun um að aðstoða stjórnvöld í ríkjum EES þegar um er að ræða gistiríki íslensks fyrirtækis, hvort sem er við öflun upplýsinga um íslenska fyrirtækið eða vegna samskipta við íslenska fyrirtækið, þ.m.t. vegna innheimtu sekta, óski þar til bær stjórnvöld í gistiríkinu eftir slíkri aðstoð. Þessi skylda er lögð á Vinnumálastofnun á grundvelli tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2014/67. Það sem er mikilvægt fyrir íslenskan vinnumarkað er að skyldan er gagnkvæm og því ber stjórnvöldum í öðrum EES ríkjum að aðstoða íslensk stjórnvöld með sama hætti.
  - Auk ákvæða í núgildandi lögum um heimild Vinnumálastofnunar til að krefjast þess að lögregla stöðvi vinnu tímabundið eða loki starfsemi fyrirtækisins hér á landi tímabundið þangað til úrbætur hafa verið gerðar, eru heimildir til að leggja á starfsemina dagsektir, gerðar skýrari. Þá er í frumvarpinu komin heimild sem ekki er í núgildandi lögum til að leggja stjórnvaldssektir á erlend þjónustufyrirtæki, innlendar og erlendar starfsmannaleigur og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem veita stofnuninni ekki upplýsingar og/eða aðgang að gögnum á tilskildum tíma eða veita stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. 
  Markmiðin með framangreindum heimildum og nýmælum er fyrst og fremst að hafa varnaðaráhrif, en jafnframt er mikilvægt að þeim verði beitt ef þörf krefur.
 3. Skyldur notendafyrirtækja til að veita upplýsingar og ábyrgð á launaþáttum - „keðjuábyrgð“
  Með frumvarpinu eru lagðar ríkari skyldur á notendafyrirtæki að veita upplýsingar um viðskipti þeirra við erlend þjónustufyrirtæki og starfsmannaleigur. Það sem er þó mikilvægast varðandi skyldur notendafyrirtækja snýr að ábyrgð þeirra gagnvart starfsmönnum erlendra þjónustufyrirtækja og starfsmannaleiga.
  a. Ábyrgð notendafyrirtækja skv. lögum nr. 45/2007 um útsenda starfsmenn
  Í frumvarpinu er kveðið á um ábyrgð innlendra notendafyrirtækja, aðalverktaka (verkkaupa), sem semja við erlend þjónustufyrirtæki, svokölluð „keðjuábyrgð“. 
  Megintilgangurinn með „keðjuábyrgðinni“ er að notendafyrirtæki vandi betur val sitt þegar kemur að samningum við erlend þjónustufyrirtæki. Það er einnig reynslan frá Noregi þar sem keðjuábyrgð hefur verið við líði í nokkurn tíma.
  Í frumvarpinu er með ítarlegum hætti útfært hvernig keðjuábyrgðin er virkjuð og hvernig hún er í framkvæmd. Helstu atriðin eru eftirfarandi:
  - Keðjuábyrgðin nær til launaþátta og launatengdra gjalda. 
  Ábyrgð notendafyrirtækis nær til:

  • vangoldinna launa og launaþátta, skv. kjarasamningi um viðkomandi starf
  • vangoldinna launa fyrir yfirvinnu 
  • vangoldinna launa í veikinda- og slysatilvikum 
  • vangoldinna launatengdra gjalda á Íslandi 
  • Ábyrgðin nær ekki til vangoldinna orlofslauna og er litið svo á að lengd ábyrgðartímans vegi það upp
  - Keðjan er „óslitin“ þ.e. ekki er hægt að slíta keðjuna með fléttum eða svikafyrirtækjum.
  - Reynt að tryggja að framkvæmdin geti verið einföld og möguleiki er á að virkja keðjuábyrgðina án þess að einstaklingar setji sig í „skotlínuna“ með því að krafa telst einnig hafa borist ef samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins hefur tilkynnt notendafyrirtækinu um vangreiðslur vegna starfsmanns þjónustufyrirtækisins, þ.m.t. starfsmannaleigunnar. 
  - Ákveðin frávik eru frá ábyrgð notendafyrirtækja sem ræðst annars vegar af hlutlægum forsendum og hins vegar af aðgerðum notendafyrirtækisins til að fyrirbyggja að brotið sé á starfsmönnum.
  - Keðjuábyrgðin nær eingöngu til byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerðar, sbr. F bálkur atvinnugreinaflokkunar Hagstofunnar. 
  Sátt varð um framangreinda niðurstöðu varðandi gildissvið keðjuábyrgðarinnar í lögum nr. 45/2007 þegar fyrir lá samkomulag um mun víðtækari ábyrgð vegna starfsmannaleiga og í ljósi þess að samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar eru vel yfir 90% starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja starfandi í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð.
  b. Ábyrgð notendafyrirtækja skv. lögum nr. 139/2005 um starfsmannaleigur 
  Í frumvarpinu er að finna breytingar á lögum nr. 139/2005 um starfsmannaleigur, þar sem innleidd er ábyrgð notendafyrirtækis „keðjuábyrgð“. Um er að ræða í meginatriðum samskonar fyrirkomulag og framkvæmd eins og í lögunum nr. 45/2007. Það eru þó tvö mikilvæg frávik sem vert er að vekja athygli á.
  Samkvæmt frumvarpinu gildir ábyrgð notendafyrirtækja bæði gagnvart erlendum og innlendum starfsmannaleigum. Þá nær „keðjuábyrgðin“ til allra atvinnugreina. Hér er um mikilvæga réttarbót að ræða bæði almennt og þar sem starfsemi innlendra starfsmannaleiga hefur vaxið mjög á kostnað erlendra og starfsmenn starfsmannaleiga eru nú starfandi í fjölmörgum atvinnugreinum.
  Þá er rétt að minna á að samkvæmt lögum um starfsmannaleigur (5. gr. a.) skulu starfsmenn þeirra á þeim tíma sem hann sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki að lágmarki njóta sömu launa og annarra starfskjara og hann hefði notið hefði hann verið ráðinn beint til notendafyrirtækisins til að gegna sama starfi.
  c. Samkomulag ASÍ og SA um starfsmannaleigur
  Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa gert með sér samkomulag um „eftirlit með launum og starfskjörum starfsmanna starfsmannaleiga, ábyrgð notendafyrirtækja og sérstaka viðurkenningu starfsmannaleiga.“ Með samkomulaginu er afstaða aðila til mikilvægis heilbrigðs vinnumarkaðar áréttuð og hvernig aðilar telja best að fylgja framangreindum lagabreytingum eftir.
  Í samkomulaginu kemur fram að „ASÍ og SA hafa látið sig málefni starfsmannaleiga varða. Kemur þá tvennt til, annars vegar að starfsmenn þeirra eru nærri undantekningarlaust erlendir og því ríkari þörf fyrir eftirliti með kjörum þeirra og hins vegar að starfsemi starfsmannaleiga felur í sér frávik frá meginreglu íslensks vinnumarkaðar um að starfsmenn séu ráðnir ótímabundið beint til vinnuveitanda.
  Við gerð samkomulags þessa eru 30 starfsmannaleigur skráðar hjá Vinnumálastofnun. Markmið samkomulagsins er m.a. að tryggja réttindi starfsmanna þeirra og auka traust aðila vinnumarkaðarins og notendafyrirtækja til starfsemi þeirra. Samningsaðilar leggja áherslu á að notendafyrirtæki, þ.e. þau fyrirtæki sem eru með starfsmenn starfsmannaleiga í þjónustu sinni, sýni ábyrgð, taki ekki þátt í brotum gegn starfsmönnum starfsmannaleiga og skipti einungis við starfsmannaleigur sem þau bera traust til.“
 4. Aðrar breytingar sem lagðar eru til samkvæmt frumvarpinu
  Auk breytinga á lögum nr. 45/2007 um útsenda starfsmenn og nr. 139/2005 eru lagðar til breytingar á ýmsum öðrum lögum. Ástæða er til að vekja athygli á eftirtöldu:
  a. Breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendingar nr. 97/2002
  Í frumvarpinu eru lagðar til þýðingarmiklar breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Lagt er til að Vinnumálastofnun verði heimilt að veita einstaklingum, sem fengið hefur dvalarleyfi hér á landi fyrir fórnarlamb mansals eða hugsanlegt fórnarlamb mansals, tímabundin atvinnuleyfi.
  Hér er um mikilvæga réttarbót að ræða í baráttunni gegn mansali á vinnumarkaði.
  b. Breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 
  Í frumvarpinu er lagt til að í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, verði kveðið á um svokallaða verkkaupaábyrgð í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð. Í þessu felst að á vinnustöðum þar sem fleiri en einn atvinnurekandi er að störfum samtímis við byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð fellur það í hlut verkkaupa eða fulltrúa hans að skipuleggja og samræma aðgerðir sem tryggja að við hönnun, undirbúning og framkvæmd verks verði gætt fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustaðnum. Enn fremur eru lagðar til breytingar á 45. gr. laganna, þannig að skýrt verði kveðið á um að sá einn megi stjórna vél sem hefur öðlast fullgild réttindi til þess. 
  Hér er í báðum tilvikum, um að ræða mikilvægar lagfæringar á vinnuverndarlögunum.

Að lokum
Alþýðusamband Íslands styður eindregið frumvarpið og þau markmið sem þar eru sett fram. Alþýðusambandið leggur ríka áherslu á að frumvarpið verði samþykkt á yfirstandandi þingi þannig að efni þess taki sem fyrst gildi og komi til framkvæmda.

Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ