Stefna ASÍ

  • Forsíða
  • Stefna ASÍ
  • Umsagnir um þingmál
  • Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra og fleiri lögum (eftirlit á vinnumarkaði, EES-mál)

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra og fleiri lögum (eftirlit á vinnumarkaði, EES-mál)

Reykjavík, 19. maí 2017
Tilvísun: 201705-0019

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra og fleiri lögum (eftirlit á vinnumarkaði, EES-mál), 457. mál

Alþýðusamband Íslands styður frumvarpið og þau markmið sem þar eru sett fram. Jafnframt leggur ASÍ til ákveðna viðbót sem sambandið telur mikilvæga og gerð er grein fyrir hér á eftir. Alþýðusambandið leggur ríka áherslu á að frumvarpið verði samþykkt á fyrir sumarið þannig að efni þess komi þegar til framkvæmda.

Greinargerð og tillögur
Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar er unnið í ágætu samstarfi starfsmanna velferðarráðuneytisins og fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, auk fulltrúa Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnun.
Hér á eftir er gerð stuttlega grein fyrir meginefni frumvarpsins eins og það horfir við Alþýðusambandinu.

1. Forsendur og meginmarkmið frumvarpsins
Það er meginregla á íslenskum vinnumarkaði að launafólk skuli njóta launa og annarra starfskjara í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi óháð þjóðerni starfsmanna eða þeirra fyrirtækja sem þeir starfa fyrir, þ.m.t. erlendra þjónustufyrirtækja að meðtöldum starfsmannaleigum. Þetta er áréttað í 4. og 5. gr. núgildandi laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007.
Á síðustu misserum og árum hafa undirboð og tengd brotastarfsemi farið vaxandi á íslenskum vinnumarkaði. Þar hafa erlend þjónustufyrirtæki sem koma tímabundið með starfsmenn hingað til lands, þ.m.t. starfsmannaleigur verið mjög áberandi.
Algengustu brotin eru að laun og önnur starfskjör eru oft langt undir íslenskum kjarasamningum, yfirvinna ekki greidd og réttindi starfsmanna eru ekki virt hvað varðar orlof og veikindi og slys. Hér er vert að hafa í huga að starfsmenn þjónustufyrirtækja eiga að lágmarki að njóta launa skv. kjarasamningum og starfsmenn starfsmannaleiga sömu launa og annarra starfskjara og ef þeir væru í beinu ráðningarsambandi við íslenska notendafyrirtækið.
Almennt má segja að þessi fyrirtæki sem flest koma frá fátækum ríkjum Evrópu reyni að flytja með sér hingað til lands léleg kjör og takmörkuð réttindi á vinnumarkaði sem gilda í heimalandinu. Þá gildir um mörg þessara fyrirtækja að þau halda starfsmönnum sínum frá upplýsingum um laun og önnur starfskjör sem hér gilda, útvega þeim íbúðarhúsnæði sem er með öllu óásættanlegt og ala á ótta starfsmannanna við að sækja rétt sinn. Í alvarlegustu tilfellunum má fullyrða að þessi fyrirtæki stundi brotastarfsemi sem jaðra við mansal, ef ekki er hreinlega um vinnumansal að ræða.
Í framangreindu ljósi er mikilvægt að í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar er bætt inn markmiðsgrein þar sem réttindi framangreindra starfsmanna eru áréttuð, en þar segir:
„Markmið laga þessara er að tryggja að laun og önnur starfskjör starfsmanna sem erlend fyrirtæki senda tímabundið hingað til lands í því skyni að veita þjónustu hérlendis séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á vinnumarkaði hér á landi.
Enn fremur er það markmið laga þessara að stjórnvöld geti fengið yfirsýn yfir eðli og umfang starfsemi erlendra þjónustuveitenda hér á landi og eftir atvikum í heimaríki þeirra, hvort sem þeir veita þjónustu hérlendis sem sjálfstætt starfandi einstaklingar eða hafa starfsmenn í vinnu, í því skyni að tryggja að erlendir þjónustuveitendur starfi löglega hér á landi.“

2. Skyldur erlendra þjónustufyrirtækja, þ.m.t. starfsmannaleiga, heimildir til eftirlits og viðurlög
Með frumvarpinu er dregin lærdómur af þeirri reynslu sem fengist hefur af starfsemi erlendra þjónustufyrirtækja og starfsmannaleiga á íslenskum vinnumarkaði síðustu misseri og ár og treystar betur þær reglur sem gilda um starfsemi þessara fyrirtækja og réttindi starfsmanna þeirra, þannig að tryggja megi að kjarasamningar og lög á íslenskum vinnumarkaði séu virt og koma megi í veg fyrir brotastarfsemi af hálfu framangreindra fyrirtækja. Frumvarpið felur í sér nokkra mikilvæga þætti í þessum efnum:
- Kveðið er á um að Vinnumálastofnun skuli í samstarfi við samtök aðila vinnumarkaðarins birta með aðgengilegum hætti upplýsingar um lög og reglur sem gilda á vinnumarkaði hér á landi ásamt því hvar megi nálgast gildandi kjarasamninga. Þannig er erlendum þjónustufyrirtækjum ekki stætt á því að skýla sér á bakvið skort á upplýsingum um framangreint efni.
- Frumvarpið felur í sér ríkari skyldur en nú er gagnvart erlendum þjónustufyrirtækjum, þ.m.t. starfsmannaleigum, að þau veiti nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi sína bæði í heimalandinu og hér á landi til að hægt sé að ganga úr skugga um að þau starfi hér með lögmætum hætti og virði þau lög og reglur sem hér gilda, þ.m.t. réttindi starfsmanna sinna.
- Tekin eru af tvímæli um að þau stjórnvöld hér á landi sem málið varðar geti miðlað upplýsingum um starfsemina sín á milli þegar málefnaleg rök liggja til þess.
- Lagðar eru skyldur á Vinnumálastofnun um að aðstoða stjórnvöld í ríkjum EES þegar um er að ræða gistiríki íslensks fyrirtækis, hvort sem er við öflun upplýsinga um íslenska fyrirtækið eða vegna samskipta við íslenska fyrirtækið, þ.m.t. vegna innheimtu sekta, óski þar til bær stjórnvöld í gistiríkinu eftir slíkri aðstoð. Þessi skylda er lögð á Vinnumálastofnun á grundvelli tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2014/67. Það sem er mikilvægt fyrir íslenskan vinnumarkað er að skyldan er gagnkvæm og því ber stjórnvöldum í öðrum EES ríkjum að aðstoða íslensk stjórnvöld með sama hætti.
- Auk ákvæða í núgildandi lögum um heimild Vinnumálastofnunar til að krefjast þess að lögregla stöðvi vinnu tímabundið eða loki starfsemi fyrirtækisins hér á landi tímabundið þangað til úrbætur hafa verið gerðar eru heimildir til að leggja á starfsemina dagsektir gerðar skýrari. Þá er í frumvarpinu komin heimild sem ekki er í núgildandi lögum til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki og sjálfstætt starfandi einstakling sem veitir stofnuninni ekki upplýsingar og/eða aðgang að gögnum á tilskildum tíma eða veitir stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.
Markmiðin með framangreindum heimildum og nýmælum er fyrst og fremst að hafa varnaðaráhrif, en jafnframt er mikilvægt að þeim verði beitt ef þörf krefur.

3. Skyldur notendafyrirtækja til að veita upplýsingar og ábyrgð á launaþáttum - „keðjuábyrgð“
- Í frumvarpinu er að finna ábyrgð innlendra notendafyrirtækja, aðalverktaka (verkkaupa), sem semja við erlend þjónustufyrirtæki, þ.m.t. starfsmannaleigur. Ábyrgð notendafyrirtækis nær til vangoldinna launa skv. kjarasamningi um viðkomandi starf, annarra vangoldinna launaþátta og vangoldinna launa fyrir yfirvinnu. Einnig vangoldinna launa í veikinda- og slysatilvikum, sem og vangoldinna launatengdra gjalda á Íslandi. Ábyrgðin nær ekki til vangoldinna orlofslauna og er litið svo á að lengd ábyrgðartímans vegi það upp.
Megintilgangurinn með „keðjuábyrgðinni“ er að notendafyrirtæki vandi betur val sitt þegar kemur að samningum við erlend þjónustufyrirtæki, þ.m.t. starfsmannaleigur. Það er einnig reynslan frá Noregi þar sem keðjuábyrgð hefur verið við líði í nokkurn tíma.
- Með frumvarpinu er með ítarlegum hætti útfært hvernig keðjuábyrgðin er virkjuð og hvernig hún er í framkvæmd. Það sem er mikilvægt að hafa í huga hér er eftirfarandi:
o Keðjuábyrgðin nær eingöngu til launaþátta, og launatengdra gjalda.
o Keðjan er „óslitin“. Þ.e. ekki er hægt að slíta keðjuna með fléttum eða svikafyrirtækjum.
o Reynt að tryggja að framkvæmdin geti verið einföld/möguleiki á að virkja keðjuábyrgðina án þess að einstaklingar setji sig í „skotlínuna“ með því að krafa telst einnig hafa borist ef samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins hefur tilkynnt notendafyrirtækinu um vangreiðslur vegna starfsmanns þjónustufyrirtækisins, þ.m.t. starfsmannaleigunnar.
- Keðjuábyrgðin nær eingöngu til byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerðar, sbr. F bálkur atvinnugreinaflokkunar Hagstofunnar.
o Alþýðusambandið gagnrýnir þá niðurstöðu sem er í frumvarpinu varðandi afmörkun keðjuábyrgðarinnar og telur hana ekki í samræmi við þá sátt sem náðist í viðræðum ASÍ, SA og velferðarráðuneytisins. Gerð er tillaga um breytingu á þessum þætti síðar í þessari umsögn.

4. Skráningar- og upplýsingaskylda sjálfstætt starfsandi einstaklinga af EES svæðinu
- Í frumvarpinu að finna það nýmæli að nú eiga lögin einnig að gilda um skráningar- og upplýsingaskyldu einstaklingsverktaka sem koma hingað til starfa af EES svæðinu. Með því er verið að bregðast við þeirri þróun sem farið er að gæta hér á landi og hefur farið mjög vaxandi annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem verið er að búa störf launafólks í ýmis konar þjónustu- og verktakastarfsemi og starfsmannaleiga í búning verktöku til að komast undar skyldum fyrirtækja og hafa af launafólki margháttuð réttindi. Einnig tengjast þessu skattaundanskot. Í reynd er þarna um að ræða hreina gerviverktöku sem mikilvægt er að uppræta með öllu.

Tillaga að breytingu á frumvarpinu
Í samræmi við gagnrýni Alþýðusambandsins á umfang „keðjuábyrgðarinnar“ í nýrri gr. 11.a. er lagt til að við bætist ný málsgrein sem hljóðar svo:
„Ráðherra er heimilt í reglugerð, að fenginni sameiginlegri tillögu samtaka aðila á vinnumarkaði, að fjölga þeim atvinnugreinum sem ábyrgð notendafyrirtækja skv. 1. mgr. nær til.“
Framangreind málsgrein var inni í frumvarpinu þegar það var í vinnslu um miðjan mars sl. Um hana var samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og ráðuneytisins sem byggði á sátt sem m.a. Alþýðusambandið hafði fallist á, en áður hefði ASÍ lagt til að fleiri atvinnugreinar yrðu taldar upp í frumvarpinu. Rök ráðuneytisins voru að ákvæðið væri of íþyngjandi fyrirtæki. Á móti bendir ASÍ á að hér sé um eðlilegt ívilnandi ákvæði að ræða fyrir launafólk sem er í þeirri stöðu að verið er að brjóta á því.
Að öðrum kosti leggur Alþýðusambandið til að bætt verði við upptalningu atvinnugreina í gr. 11. a. eftirtaldir bálkar og deildir úr atvinnugreinaflokkun Hagstofunnar:
„Viðgerðir og uppsetning vélbúnaðar og tækja (Bálkur C, deild 33)
Flutningar á landi og eftir leiðslum (Bálkur H, deild 49)
REKSTUR GISTISTAÐA OG VEITINGAREKSTUR (Bálkur I)
Ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og önnur bókunarþjónusta (Bálkur N, deild 79)“.
Í öllum tilfellum er um að ræða atvinnugreinar þar sem brot eða grunur um brot á starfsmönnum erlendra þjónustufyrirtækja, þ.m.t. starfsmannaleiga hafa ítrekað komið upp.

Af gefnu tilefni
Vegna 1. umræðu um frumvarpið þegar mælt var fyrir því 9. maí sl. er mikilvægt að að mati Alþýðusambandsins að eftirfarandi komi fram:
1. Því fer fjarri að hér sé aðeins um „innleiðingarfrumvarp“ að ræða vegna tilskipunar ESB nr. 67/2014. Í því sambandi má nefna:
a. Í frumvarpinu er að finna mikilvæg atriði sem alls ekki eru grundvölluð á tilskipuninni. Þar nægir að benda á skilgreininguna og ákvæðið um tilkynningaskyldu sjálfstætt starfandi einstaklinga sem er ekki í tilskipuninni. Þá má benda á auknar heimildir stjórnvaldsstofnana (og aðila vinnumarkaðarins) til að afla upplýsinga og miðla. Einnig heimildir til stjórnvaldssekta.
b. Í tilskipuninni alls ekki um það að ræða að ríkjum sé skylt að taka upp keðjuábyrgð, heldur er það aðeins valkvætt. Það er hins vegar sameiginleg niðurstaða aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda að rétt sé að nýta þá heimild sem er að finna í tilskipuninni, þótt ekki hafa verið samstaða um hversu langt á að ganga eins og áður hefur komið fram.
c. Fjölmörg atriði önnur mætti tína til sem ekki verður gert hér, s.s. varðandi heimildir stjórnvaldsstofnana og skyldur erlendra þjónustufyrirtækja, þ.m.t. starfsmannaleiga og innlendra notendafyrirtækja.
2. Fram kom að keðjuábyrgð hafi þegar verið tekin upp hjá Landsvirkjun, Ríkiskaupum, Reykjavíkurborg o.fl. og kom fram ótti við að frumvarpið, yrði það að lögum, gæti raskað því með einhverjum hætti. Í þessu ljósi er mikilvægt að fram komi að:
a. Engar forsendur eru til að ætla að frumvarpið raski ákvörðunum um víðtækari keðjuábyrgð en það felur í sér.
b. Fyrir liggur að Landsvirkjun hefur sett ákvæði um „keðjuábyrgð“ inn í sína samninga. Ekki liggur fyrir hvort fleiri aðilar hafa gert það. Það eru hins vegar dæmi um að aðilar hafa sett inn ákvæði sem gefa möguleiki á sektum og riftun samninga, sem er annar hlutur.
3. Fram kom sú hugmynd að rétt kunni að vera að fresta afgreiðslu frumvarpsins til hausts og tengja afgreiðslu þess skipun/niðurstöðum starfshóps í samræmi við þingsályktun VG um keðjuábyrgð sem liggur fyrir Alþingi. Í því samhengi vill Alþýðusambandið árétta að:
a. ASÍ styður þingsályktun VG eins og fram kemur í umsögn sambandsins.
b. Það væri mjög misráðið að fresta afgreiðslu eða gildistöku frumvarpsins fram á haust, þar sem í því fælist m.a. að allir verksamningar fram að þeim tíma mundu þá falla utan ábyrgðarinnar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Mikilvægt er að frumvarpið verði afgreitt á yfirstandandi þingi. Það er stórt og mikilvægt skref í rétta átt.

Að lokum.
Að lokum áréttar Alþýðusamband Íslands að það styður frumvarpið og þau markmið sem þar eru sett fram. Jafnframt leggur ASÍ til ákveðna viðbót sem sambandið telur mikilvæga og gerð er grein fyrir hér að framan. Alþýðusambandið leggur ríka áherslu á að frumvarpið verði samþykkt sem fyrst þannig að efni þess komi þegar til framkvæmda.

Virðingarfyllst,
F.h. Alþýðusambands Íslands
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ