Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber innkaup

Reykjavík, 13. febrúar 2019
Tilvísun: 201902-0007

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016 (markviss innkaup, keðjuábyrgð o.fl.), 442. mál

Í 8. gr. frumvarpsins er að finna nýmæli um „keðjuábyrgð“, þ.e. heimild kaupanda „að fara fram á að aðalverktaki tryggi og beri ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni.“
Eins og fram kemur í frumvarpinu er eingöngu um heimildarákvæði að ræða. Þetta er nánar skýrt í athugasemdum með frumvarpinu þar sem jafnframt er bent á að: „Ekki hefur verið litið svo á að kaupendum hafi hingað til verið óheimilt að krefjast keðjuábyrgðar í núgildandi lögum en ýmsir opinberir aðilar hafa haft slík ákvæði í sínum útboðsgögnum.“ Má í þessu sambandi m.a. benda á skilmála um „keðjuábyrgð“ sem settir hafa verið vegna útboða á vegum Landsvirkjunar og í útboð Framkvæmdasýslu ríkisins vegna Húss íslenskra fræða. Með öðrum orðum þá bætir þetta heimildarákvæði engu við þær heimildir vegna opinberra innkaupa sem nú þegar eru til staðar og er því fullkomlega gagnslaust.

Tillögur samstarfshóps um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði
31. janúar sl. skilaði samstarfshópur félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði skýrslu til ráðherra . Í skýrslunni er að finna tillögur hópsins í 10 liðum, auk fjölda annarra ábendinga og efnisatriða. Í hópnum sem skipaður var í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar 14. september á síðasta ári sátu fulltrúar frá eftirtöldum aðilum:
• Forsætisráðuneyti - atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti - dómsmálaráðuneyti – félagsmálaráðuneyti - fjármála- og efnahagsráðuneyti.
• Ríkiskattstjóri - Vinnueftirlit ríkisins – Vinnumálastofnun - embætti ríkislögreglustjóra .
• Alþýðusambandi Íslands - Samtökum atvinnulífsins - Bandalagi háskólamanna – BSRB - Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Allir aðilar sem skipuðu hópinn stóðu sameiginlega að þeim tillögum sem settar eru fram í skýrslunni, þ.m.t. fulltrúi fjármálaráðuneytisins. Ein tillaga hópsins varðar sérstaklega keðjuábyrgð og opinber innkaup. Þar segir:

Um þetta efni segir enn fremur í skýrslunni (bl.s 6):
„Rætt var um mikilvægi keðjuábyrgðar til þess að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Þegar liggur fyrir frumvarp um heimild kaupanda í opinberum innkaupum til að fara fram á að aðalverktaki tryggi og beri ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleigu, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög. Mikilvægt er að kveða á um skyldu í þessum efnum og jafnframt heimild verkkaupa til að halda eftir greiðslum til aðalverktaka ef þörf krefur. Sammæltist hópurinn um að gera það að tillögu sinni að skylda til keðjuábyrgðar verði sett í lög um opinber innkaup.“
Í ljósi framanritaðs er ljóst að full samstaða er um það meðal þeirra aðila sem sem áttu fulltrúa í samstarfshópnum; stjórnvalda, stjórnvaldsstofnana og aðila vinnumarkaðarins, að gera eigi ábyrgð aðalverktaka „keðjuábyrgð“ að skilyrð í opinberum innkaupum og þar með að slíkt skilyrði verð sett þegar verkefni eru boðin út skv. lögum um opinber innkaup nr. 120/2016.
Alþýðusamband Íslands skorar á Alþingi að gera „keðjuábyrgð“ að skyldu í lögum um opinber innkaup. Það má gera með því að gera eftirfarandi breytingar á 8. gr. frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar:
Kaupandi skal gera kröfu um að aðalverktaki tryggi og beri ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni.
Kaupanda er jafnframt heimilt að greiða vangoldnar verktakagreiðslur til undirverktaka og annarra starfsmanna, sem svara til launatengdra greiðslna, á kostnað aðalverktaka standi hann ekki í skilum með slíkar greiðslur.
Heimild til greiðslu skv. 2. mgr. skal tilgreind í útboðsgögnum, að verk sé í nánu og eðlilegu samhengi við opinberan samning sem undirverktaka er ætlað að framkvæma fyrir aðalverktaka og að kröfum sé beint til verkkaupa innan fjögurra mánaða frá því að þær gjaldféllu.
Rétt er að geta þess að þegar hafa verið sett ákvæði um „keðjuábyrgð“ í lög um útsenda starfsmenn (nr. 45/2007) og lög um starfsmannaleigur (nr. 139/2005), en þau ákvæði hafa eðli málsins samkvæmt mjög takmarkað gildissvið.

Alþýðusamband Íslands lýsir sig reiðubúið til að gera frekari grein fyrir afstöðu sinni og tillögum um „keðjuábyrgð“ vegna opinberra innkaupa. Þá áskilur ASÍ sér rétt til að koma síðar með umsögn um annað er varðar frumvarp það sem hér er til umfjöllunar.

Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ