Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál

Reykjavík, 23. apríl 2019
Tilvísun: 201904-0012

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum (styrking á stjórnsýslu og umgjörð), 758 . mál

Alþýðusamband Íslands tekur almennt undir þær breytingar sem fram koma í ofangreindu frumvarpi og telur nauðsynlegt að styrkja alla stjórnsýslu og umgjörð þessa mikilvæga málaflokks sem loftlagsmál eru.
Virk aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftlagsmálum er forsenda þess að stjórnvöld og samfélagið sem heild séu undirbúin undir þær afleiðingar sem loftlagsbreytingar óhjákvæmilega hafa. Breytingar á umhverfis okkar hafa nú þegar víðtæk áhrif á efnahags- og atvinnulíf til framtíðar og lífskjör almennings.
ASÍ sem fjölmennustu heildarsamtök launafólks hér á landi skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem felst í því að taka virkan þátt í baráttunni gegn loftlagsbreytingum. Í 3. grein frumvarpsins þar sem fjallað er um loftlagsráð er lögð áhersla á að „…í ráðnu eigi sæti fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagins, sveitarfélaga og umhverfisverndarsamtaka auk annarra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í ráðinu á hverjum tíma.“
ASÍ bendir á að þegar fjallað er um atvinnulífið hér á landi þá eru það augljóst að þar er einnig átt við samtök launafólks. Eins og áður hefur verið nefnt þá er Alþýðusambandið fjölmennustu samtök launafólks á Íslandi - félagsmenn aðildarfélaga og deilda ASÍ árið 2018 eru 133.000, eru þeir starfandi á flestum sviðum samfélagsins, á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum.
Loftlagsbreytingar hafa óhjákvæmilega áhrif á félagsmenn aðildarfélaga ASÍ og samkvæmt þeim verkefnum sem loftlagsráð er falið að vinna að þá er nauðsynlegt að tryggja að Alþýðusamband Íslands eigi þar fulltrúa. Eins og alþjóðaverkalýðshreyfingin segir og ASÍ tekur undir þá eru „Engin störf á dauðri plánetu“ og forsendur breytinga er þátttaka og samvinna en þar hefur ASÍ mikilvægu hlutverki að gegna.

Virðingarfyllst,
f.h. Alþýðusambands Íslands
Maríanna Traustadóttir,
sérfræðingur