Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, 515. mál.

Alþýðusamband Íslands telur margt í frumvarpinu orka tvímælis og getur því ekki lýst yfir stuðningi við það í þeirri mynd sem það hefur verið lagt fram. Hér er einkum um að ræða ákvæði er lúta að gjaldtöku vegna leyfa, ákvæði um auglýsingar á leyfisveitingum og atriði er snúa að réttindum launafólks.

Gjaldtaka

Þrátt fyrir að frumvarpið taki af tvímæli um að íslenska ríkið sé eigandi að kolvetnisauðlindinni eru ákvæði um gjaldtöku vegna nýtingarréttar ófullnægjandi.

Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins verður Orkustofnun heimilt „að semja við handhafa vinnsluleyfis að hann verði eigandi þess kolvetnis sem hann framleiðir“. Hér er um að ræða afsal á auðlind í sameign þjóðar – án skýrra ákvæða um gjaldtöku. Samkvæmt 4. og 16. gr. frumvarpsins er gjaldtaka vegna leyfa fyrst og fremst hugsuð til að standa undir kostnaði af undirbúningi og útgáfu leyfa.

Tryggja verður að allir landsmenn njóti eðlilegs arðs af hugsanlegri nýtingu kolvetnisauðlindarinnar.

Auglýsingar

Ákvæði um auglýsingar á leyfisveitingum virðast ganga gegn ákvæðum í núgildandi lögum um veitingu leyfa á grundvelli hlutlægra viðmiða.

Í 3. mgr. 8 gr. í núgildandi lögum segir þannig að „ við veitingu leyfis skal umsækjendum ekki mismunað og skal jafnræðis gætt. Leyfi skulu veitt á grundvelli hlutlægra viðmiðana sem gerðar hafa verið opinberar.“


Í 5. gr. frumvarpsins er hins vegar lagt til að heimilt verði að veita leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis án auglýsingar ef svæðið sem leitað er leyfis fyrir uppfyllir ákveðin skilyrði, m.a. um að vera „aðgengilegt til langs tíma“ eða um að hafa áður sætt sambærilegri málsmeðferð.

Það hlýtur að vera óheppilegt ef leyfi til leitar, rannsókna og vinnslu sé veitt til eins tiltekins aðila án þess að aðrir áhugasamir aðilar viti af því.

Réttindi launafólks

Í 5. gr. frumvarpsins segir að „við ákvörðun um veitingu rannsóknar- og vinnsluleyfis skal einkum taka mið af fjárhagslegri og tæknilegri getu umsækjenda, að vinnsla auðlindar sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og á hvaða hátt framlögð rannsóknaráætlun getur náð settu markmiði.“

Telja verður eðlilegt að einnig sé tekið mið af því á hvaða hátt áætlanir séu í samræmi við reglur um réttindi launafólks og vinnuvernd, líkt og í lögum um framkvæmd opinberra innkaupa.

 

F. h. Alþýðusambands Íslands,

Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ