Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum (jafnlaunavottun)

Reykjavík, 10. maí 2017
Tilvísun: 201704-0049

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum (jafnlaunavottun), 437. mál

Jafn réttur og jöfn tækifæri kvenna og karla til starfa, starfsþróunar og launa eru meðal þeirra grundvallarþátta mannréttinda sem verkalýðshreyfingin byggir á og skal standa vörð um. Atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er um 80% og er framlag þeirra ómetanlegt. Íslenskt samfélag væri í grundvallaratriðum ólíkt því sem við þekkjum í dag og lífskjör allt önnur og lakari ef ekki kæmi til vinnuframlags kvenna.

Árið 1961 voru sett lög um launajöfnuð kvenna og karla og var það frumvarp flutt af forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar sem þá voru jafnframt á þingi. Þá var með setningu jafnréttislaga árið 1976 kveðið á um að konum og körlum skulu greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Þrátt fyrir framangreinda löggjöf er launamisrétti á íslenskum vinnumarkaði staðreynd. Kynbundinn launamunur er samkvæmt rannsókn Hagstofunnar frá því í maí 2015 7,8% á vinnumarkaðinum í heild.
Alþýðusamband Íslands hefur í áratugi barist fyrir jafnrétti og gegn kynbundnum launamun á vinnumarkaði. Með kjarasamningi ASÍ og Samtaka atvinnulífsins í febrúar 2008 fylgdi sérstök bókun um jafnréttisáherslur. Umfangsmesta verkefnið, sem þar kom fram, var að þróa ferli vegna vottunar á framkvæmd stefnu um launajafnrétti. Skömmu síðar var samþykkt á Alþingi ákvæði til bráðabirgða í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar er kveðið á að þróað yrði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnfrétti.
Á grundvelli þessara ákvarðana fóru ASÍ, SA og þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra þess á leit við Staðlaráð Íslands að það hefði umsjón með gerð staðals um framkvæmd stefnu um launajafnrétti og jafna möguleika kynjanna til starfs og starfsþróunar sem nýst gæti sem undirstaða vottunar. Kostuðu þessir aðilar jafnframt vinnuna við gerð staðalsins. Tækninefnd sem skipuð var, m.a. af fulltrúum ASÍ, ákvað að afmarka verkefni fyrst um sinn við gerð staðals um jafnlaunakerfi sem væri ætlað til vottunar.

Tilraunaverkefni um innleiðingu ÍST 85:2012
Þegar að staðallinn ÍST 85:2012 var tilbúinn síðla árs 2012 var ákveðið að skipa aðgerðarhóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Eitt að meginverkefnum aðgerðahópsins var að fylgja eftir tilraunaverkefni um innleiðingu staðalsins ÍST 85:2012.
Nokkur fyrirtæki og stofnanir á almenna og opinbera vinnumarkaðinum tóku þátt í tilraunaverkefninu.
Allir þeir sem þátt tóku í tilraunaverkefninu eru sammála um að innleiðing staðalsins er krefjandi og nokkur skuldbinding fyrir vinnustaðinn. En að sama skapi eru þeir einnig sammála um að ávinningurinn sé sannarlega þess virði, þ.e. gagnsætt og sanngjarnt launakerfi. Innleiðing jafnlaunastaðalsins gerir það að verkum að stjórnendur verða meðvitaðri um þau atriði þar sem gæti falist mismunun í launasetningu. Að lokum má nefna að jafnlaunastaðallinn er verkfæri fyrir vinnustaðinn til að tryggja jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf án tillits til kyns, uppruna eða annars konar mismununar.
Öll vinna við gerð og innleiðingu staðalsins ÍST 85:2012 hefur verið unnið í þríhliða samstarfi stjórnvalda, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Þetta samstarf hefur verið mikilvægt og sú orðræða sem fram hefur farið og samkomulagið sem náðst hefur er forsenda þess að jafnlaunavottun á grundvelli staðalsins er framkvæmanleg. Því er mikilvægt að halda áfram samstarfinu við innleiðingu jafnlaunavottunarinnar á grundvelli staðalsins ÍST 85.

Jafnlaunavottun
Samkvæmt frumvarpinu er Staðallinn ÍST 85, Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar, grunnur að jafnlaunavottuninni, og er gert ráð fyrir að jafnlaunakerfi stofnanna og fyrirtækja uppfylli kröfur staðalsins.
ASÍ fagnar frumvarpinu og telur það mikilvægan áfanga í jafnréttisbaráttunni. Staðreyndir sýna að þrátt fyrir áratuga baráttu er kynbundinn launamunur staðreynd á íslenskum vinnumarkaði sem þarf að uppræta með öllum tiltækum ráðum.
Eins og áður hefur komið fram var Alþýðusambandið einn af frumkvöðlunum að gerð jafnlaunastaðalsins. Þá hefur ASÍ frá upphafi tekið virkan þátt í gerð og þróun staðalsins sem jafnlaunavottunin byggir á. Á sama hátt telur Alþýðusambandið mikilvægt að verkalýðshreyfingin og aðrir aðilar vinnumarkaðarins komi með virkum hætti að innleiðingu jafnlaunastaðalsins og eftirfylgni með framkvæmdinni. Fyrir verkalýðshreyfinguna er það sérstaklega mikilvægt enda varðar málið mikilvæga hagsmuni alls launafólks.
Mikilvægt er að vel takist til við innleiðingu jafnlaunavottunarinnar og fagnar ASÍ því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samtökum aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að semja svo um í kjarasamningum að við úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækis eða stofnunar þar sem 25 - 99 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli hafi fyrirtæki eða stofnun val um það hvort úttekt fari fram á grundvelli 1. gr. b staðalsins þar sem kveðið er á um að verði „leitað eftir staðfestingu á að kröfurnar séu uppfylltar hjá hagsmunaaðilum, s.s. fulltrúum starfsmanna“, eða 1. gr. c staðalsins ÍST 85 þar sem kveðið er á um að „leitað eftir vottun þar til bærs aðila á jafnlaunakerfi sínu“.
Aðilar vinnumarkaðarins, bæði á almenna vinnumarkaðinum og hjá ríki og sveitarfélögum, hafa þegar átt viðræður um efni kjarasamnings á framangreindum grunni. Þar er gert ráð fyrir
að framkvæmd úttektar og staðfesting byggir á nánari reglum sem settar verða af samningsaðilum. Aðilar sem staðfesta jafnlaunakerfi skulu fá til þess viðurkenningu samningsaðila og hafa til þess hæfi skv. nánari reglum sem samningsaðilar setja þar um (í samráði við velferðarráðuneytið).
Alþýðusambandið fagnar sérstaklega að frumvarpið kveður á um að „Samtök aðila vinnumarkaðarins annast eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli öðlist vottun skv. 4. mgr. eða staðfestingu skv. 5. mgr. og endurnýjun þar á. Fyrirtæki og stofnanir skulu veita samtökum aðila vinnumarkaðarins þær upplýsingar og gögn sem samtök aðila vinnumarkaðarins telja nauðsynleg til að sinna eftirliti samkvæmt þessari málsgrein. Hafi fyrirtæki eða stofnun ekki öðlast vottun skv. 4. mgr. eða staðfestingu skv. 5. mgr., eða endurnýjun þar á, eða veitir ekki nauðsynlegar upplýsingar eða gögn skv. 2. málsl. geta samtök aðila vinnumarkaðarins tilkynnt um það til Jafnréttisstofu. Jafnréttisstofa getur beint þeim fyrirmælum til hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar að gera viðunandi úrbætur innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum.“ Með þessu er áréttað mikilvægt hlutverk aðila vinnumarkaðarins við að fylgja eftir og tryggja að kjarasamningar og löggjöf um vinnumarkaðinn séu virt. Og aðilum jafnframt í samstarfi við hlutaðeigandi stjórnvöld lögð í hendur verkfæri til að bregðast við ef á reynir.

Af gefnu tilefni
Vegna athugasemda sem komið hafa fram m.a. frá Staðlaráði vegna þess að með frumvarpinu er verið að lögleiða notkun ÍST 85:2012 staðalsins fyrir fyrirtæki með 25 starfsmenn og fleiri er rétt að benda á að í lögum um Staðlaráð Íslands segir í 3. gr. „Staðall er til frjálsra afnota. Stjórnvöld geta þó gert notkun tilgreinds staðals skyldubundna með vísun til hans og hlutaðeigandi laga. Skal hann þá staðfestur með reglugerð af hlutaðeigandi ráðuneyti og skal í reglugerð vísa til staðalsins.“
Þá hafa verið settar fram efasemdir um að fyrirtæki og stofnanir með 25 – 50 starfsmenn geti risið undir þeim skyldum sem kveðið er á um í frumvarpinu. Að því tilefni er mikilvægt að benda á að aðilar vinnumarkaðarins hafa í viðræðum sínum um gerð kjarasamnings sérstaklega fjallað um með hvaða hætti megi mæta aðstæðum þessara aðila á grundvelli 1. gr.b staðalsins án þess að gefa afslátt af markmiðinu.
Að lokum
Alþýðusamband Íslands ítrekar stuðning sinn við frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, 437. mál, sem hér er til umfjöllunar og hvetur til þess að frumvarpið verði afgreitt á yfirstandandi þingi. Þá áréttar ASÍ mikilvægi þess að vel takist til við innleiðingu jafnlaunavottunarinnar þar sem að sambandið hefur fulla trú á að jafnlaunastaðallinn sé mikilvægt verkfæri í baráttunni um að eyða kynbundum launamun, sem er óásættanlegur blettur á íslenskum vinnumarkað. Alþýðusambandið lýsir sig jafnframt tilbúið til að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.

Fh. Alþýðusambands Íslands
Maríanna Traustadóttir,
sérfræðingur