Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál

Reykjavík 23.06 2010

Mál: 201006-0008

 

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál (634 mál).

Alþýðusamband Íslands styður markmið og framgang þessa máls.

Með frumvarpinu eru lánsheimildir rýmkaðar í því skyni að hvetja til verklegra framkvæmda og samhliða stutt annars vegar við markmið um aðgengi og búsetufrelsi aldraðra og fatlaðra og hins vegar stuðlað að aukinni fjölbreytni búsetuúrræða.

ASÍ vill vekja athygli nefndarinnar á mikilvægi þess að vandað verði til framkvæmdar á 1.gr. frumvarpsins og almennt til meðferðar á fasteignum sem Íbúðalánasjóður eignast. Íbúðalánasjóður hefur nú þegar leyst til sín fjölda íbúða og líklegt að þeim innlausnum muni fjölga. Ráðstöfun þeirra eigna, hvort heldur er með sölu, almennri leigu til íbúðar, leigu til annarra nota eða leigu gegn kauprétti getur haft veruleg áhrif á fasteignaverð og þar með á eignastöðu almenns launafólks og rekstrarskilyrði aðila á sama markaði og sjóðurinn fer inn á.

Vakin er einnig athygli á misræmi í 2.mgr. ákvæðis til bráðabirgða. Í fyrsta málslið er opnað fyrir lánveitingar til fyrirtækja og opinberra aðila. Síðar í sama málslið er gildissviðið takmarkað við fyrirtæki og sveitarfélög og miðast skýringar í greinargerð við það.

Áskilinn er réttur til þess að koma að frekari athugasemdum við þingmál þetta eftir því sem meðferð þess á Alþingi miðar.

 

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ