Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (kennitöluflakk)

Reykjavík, 11. desember 2018
Tilvísun: 201811-0045

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (kennitöluflakk), 38. mál

Alþýðusamband Íslands fagnar því að þetta mikilvæga mál er tekið á dagskrá Alþingis og tekur undir það sem segir í greinargerð með frumvarpinu:

Engum dylst að kennitöluflakk er mikil meinsemd og af einhverjum ástæðum hefur það fylgt íslensku atvinnulífi í áraraðir. Þó svo ekki sé til einhlít lagaleg skilgreining á því hvað felist í kennitöluflakki má telja að flestum sem koma að atvinnurekstri með einum eða öðrum hætti sé það nokkuð ljóst. Kennitöluflakk felur í sér misnotkun eigenda og stjórnenda á félagaforminu sem veitir þeim skjól vegna þeirrar takmörkuðu ábyrgðar sem eigendur bera á skuldbindingum félagsins. Þannig er skuldum vegna atvinnurekstrar safnað í eitt félag og síðan þegar félagið er komið í rekstrarleg vandræði er snarlega stofnað nýtt félag í sama atvinnurekstri með nýrri kennitölu og reksturinn færður þangað. Í gamla félaginu eru þá skildar eftir skuldbindingar sem að jafnaði fást ekki greiddar við gjaldþrotaskipti félagsins.
Oft er um að ræða skuldir við hið opinbera, vanskil á sköttum og gjöldum, en einnig skuldbindingar við aðra einkaaðila, birgja og fleiri, sem og vangoldin laun. Þessi háttsemi felur í sér samfélagslegt tjón þar sem skuldbindingar fást ekki greiddar og jafnframt bitnar háttsemin á þeim sem standa heiðarlega að sínum rekstri og fylgja leikreglum. Háttsemin er til þess fallin að ýta undir vantraust í garð atvinnulífsins og samkeppnisstaða þeirra sem fylgja leikreglum skekkist. Háttsemin eykur kostnað atvinnulífsins þar sem viðbrögð stjórnvalda eru að jafnaði að auka eftirlit og með því eykst kostnaður atvinnulífsins. Í heild tapar samfélagið.

Alþýðusamband Íslands áréttar þá skoðun sína að kennitöluflakk er alvarleg meinsemd í íslensku atvinnulífi sem ber að uppræta og hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu síðan.
Frá árinu 2013 hefur Alþýðusambandið haft baráttuna gegn kennitöluflakki ofarlega í sinni kröfugerð og hvatt til aðgerða í þeim efnum. Með samkomulagi við Samtöku atvinnulífsins um mitt ár 2017 náðist mikilvægur áfangi í þessum efnum. Samkvæmt þeim tillögum sem þar eru settar fram er lögð til nokkuð önnur leið en frumvarpið gerir ráð fyrir. Leið sem ætlað er að vera skjótvirkari og er jafnframt ætlað að ná til „skuggastjórnenda“. Með tillögunum er dregin lærdómur af reynslu nágrannaþjóðanna og byggja þær í grunninn á sömu grundvallarþáttunum.

Tillögur ASÍ og SA hafa verið til umfjöllunar á vettvangi atvinnuvegaráðuneytisins með aðkomu fleiri ráðuneyta. Alþýðusambandið fagnar því að til standi skv. þingmálaskrá ferðmála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að leggja fram frumvarp um kennitöluflakk í janúar nk. og væntir þess að frumvarpið byggi á framangreindum tillögum. Jafnframt væntir Alþýðusambandið stuðnings flytjenda þessa frumvarps við sjónarmið og tillögur aðila vinnumarkaðarins.

Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ