Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn)

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, 356. mál. Umsögn ASÍ lýtur að 2. gr., 3.gr., 8. gr. og 9. gr. frumvarpsins.

ASÍ fagnar frumvarpinu þar sem m.a. er hvatt til þess að gætt verði að kynjahlutföllum í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga. Auk þess er lögð áhersla á að kynjasjónarmið sé haft að leiðarljósi við ráðningar í stjórnunarstöður hjá hlutafélögum og einkahlutafélögum.

ASÍ telur mikilvægt að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og ekki síst að jafna stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum. Eins og fram kemur í gildandi jafnréttislögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008 skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna í starfsemi sinni og á vinnumarkaði almennt.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á upplýsingagjöf til hlutafélagaskrár um hlutföll kynjanna í stjórnum, meðal starfsmanna og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga. Alþýðusambandið telur að kyngreindar upplýsingar á sem flestum sviðum samfélagsins séu nauðsynlegar og forsenda samþættingar jafnréttissjónarmiða í stefnumótum og ákvörðunum.

Alþýðusamband Íslands styður því frumvarpið.