Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélagalög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur

Reykjavík: 22.03 2017
Tilvísun: 201703-0016


Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélagalög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur (einföldun, búsetuskilyrði), 237. mál

Alþýðusamband Íslands fékk málið til umsagnar á síðasta löggjafarþingi (664. mál). Var þá veitt svohljóðandi neðangreind umsögn og er hún hér með ítrekuð.

„Alþýðusamband Íslands er sammála því markmiði sem frumvarpinu er ætlað að ná, sérstaklega hvað varðar það að stemma stigu við kennitöluflakki. Hins vegar eru þau skref sem í frumvarpinu eru tekin í átt að því markmiði að mati Alþýðusambandsins afar veik og vart til þess að fallin að vinna nokkuð á þeim vanda sem kennitöluflakk er í íslensku samfélagi.

Alþýðusamband Íslands hefur nú um nokkurt skeið kallað eftir breytingum á þeim lögum og reglum sem gilda um félög með takmarkaða ábyrgð og hefur m.a. lagt fram ítarlegar tillögur í skýrslu sinni frá október 2013 (sjá meðfylgjandi). Úr því að verið er að mæla fyrir um breytingar á þeim helstu lögum sem gilda um starfsemi félaga með takmarkaða ábyrgð skorar Alþýðusamband Íslands á þingmenn að grípa til aðgerða sem hafa raunveruleg áhrif á gang mála.“


Virðingarfyllst f.h. ASÍ,
Halldór Oddsson hdl.
Lögfræðingur hjá ASÍ