Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um helgidagafrið og lögum um 40 stunda vinnuviku (starfsemi á helgidögum)

Reykjavík 05.03 2019
Tilvísun: 201902-0030

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um helgidagafrið og lögum um 40 stunda vinnuviku (starfsemi á helgidögum), 549. mál

Um frumvörp af sama eða svipuðum toga hefur ASÍ áður veitt umsagnir og er til þeirra vísað. Jafnframt er vísað til þeirra sjónarmiða sem sett voru fram við undirbúning þessa þingmáls og sem tekin eru að hluta upp i greinargerð. Eftirfarandi er þó tekið fram.

Það sem ASÍ hefur gert alvarlegar athugasemdir við á fyrri stigum tengist í raun því meginmarkmiði frumvarpsins sem nú er tilgreint í greinargerð að sé; „að auka frelsi til atvinnurekstrar á helgidögum og koma til móts við þá sem njóta vilja þjónustu og afþreyingar á þessum dögum.“

Athugasemdir ASÍ eru ekki tilkomnar vegna andstöðu þess við frelsi til atvinnurekstrar heldur vegna þess að það frelsi vegst á við frelsi félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ, hvort sem er í verslun og þjónustu eða öðrum atvinnugreinum. Það frelsi lítur að frelsi þeirra og rétti til þess að geta notið samveru og eftir atvikum helgihalds og afþreyingar með vinum og fjölskyldu á lögbundnum frídögum eins og löng hefð er fyrir í samfélagi okkar. Á fyrri stigum hefur ASÍ vakið athygli á því að opnunartími verslana hér á landi sé með frjálsara móti miðað við hinn vestræna heim almennt. Í greinargerð með frumvarpinu kemur hvergi fram hvort og þá í hvaða mæli núverandi fyrirkomulag takmarki frelsi til atvinnurekstrar þannig að nauðsyn beri lagasetningar sem óhjákvæmilega mun breyta hefðum og venjum á íslenskum vinnumarkaði og raunar í samfélaginu öllu.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ