Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum

Reykjavík, 20. apríl 2011

Tilvísun: 201104-0038

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum. 747. mál.

Margt af því sem í frumvarpinu fellst horfir að mati Alþýðusambands Íslands til bóta eða er eðlilegt í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru upp í samfélaginu. Þó telur ASÍ rétt að benda á eftirfarandi.

Breytt er ákvæðum í lögunum um val nemenda í námi á unglingastigi þar sem valið fer úr þriðjungi námstímans í 8.–10. bekk í allt að fimmtung námstímans. Jafnframt fá skólar heimild til að hafa valið mismunandi eftir árgöngum á unglingastigi og að binda valið að hluta í bóklegt nám og nám í list- og verkgreinum.

Að mati ASÍ á valið á unglingastigi, ef vel er að verki staðið, að auka fjölbreytni í námsframboði og mæta þannig áhuga og hæfni stærri hóps nemenda en nú er og helst sem flestra., þar sem áhersla væri á aukið vali í list- og verkgreinum. Með því að draga úr umfangi valsins án þess að sett sé fram skýrari leiðbeining í þessum efnum er ástæða til að óttast að skólastarfið fjarlægist frekar framangreind markmið.

Ofangreint atriði tengist með beinum og óbeinum hætti ábendingu sem Alþýðusambandið kom með við umfjöllun um frumvarp til laga um grunnskóla, þegar það var til umfjöllunar á Alþingi í byrjun árs 2008. Í umsögn ASÍ sagði m.a.:

„1. Réttur nemenda til náms við hæfi og til námsráðgjafar

Í frumvarpinu er áhersla lögð á rétt nemenda  „til kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi” sbr. 13. gr. Í frumvarpinu eða athugasemdum með því er hins vegar ekki gerð tilraun til að skýra nánar eða útfæra hvernig ná eigi þessum markmiðum. Ljóst er að vandi er að útfæra slíkt í löggjöf með fullnægjandi hætti en það hefði mátt nálgast með umfjöllun og leiðbeiningum í athugasemdum með frumvarpinu.

Þá segir í 13. gr. að nemendur eigi  „rétt á að njóta námsráðgjafar í grunnskóla og ráðgjafar um náms- og starfsval.” Þá kemur fram í athugasemdum að ekki sé kveðið á um umfang náms- og starfsráðgjafar eða með hvaða hætti slík ráðgjöf er fyrir komið. Viðurkennt er að öflug og markviss námsráðgjöf strax á miðstigi og í eldri bekkjum grunnskóla er mikilvæg fyrir nemendur, þar sem miklu skiptir að þeir finni sér verkefni í náminu eftir áhuga og við hæfi. Í því ljósi er með ólíkindum að ekki skuli kveðið skýrar á um skyldur skólanna í þessum efnum, fyrirkomulag og gæði þeirrar þjónustu sem þeim ber að veita á þessu sviði.

Tillaga Alþýðusambands Íslands

Nýjum grunnskólalögum fylgi leiðbeiningar til sveitarfélaganna um það hvernig best verður tryggt að nemendur fái nám við hæfi hvers og eins.

Kveðið verði með skýrum hætti á um að grunnskólarnir skuli veita nemendum sínum námsráðgjöf við hæfi og af fagmennsku.“

Fjölmargar rannsóknir sem birst hafa um brottfall ungmenna úr skóla síðan þetta var skrifað hafa staðfest með óyggjandi hætti að mikilvægt er að taka mun fastar á málum strax á grunnskólastiginu, auka námsval og veita ungmennunum traustari leiðsögn en nú er. Má sem dæmi um slíkar rannsóknir nefna skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar:„Frafall i utdanning for 16–20 åringer i Norden”[1].

Alþýðusamband Íslands hvetur menntamálanefnd Alþingis til að taka á framangreindum þáttum í umfjöllun sinni um breytingar á grunnskólalögunum nú.

 

Virðingarfyllst,

Halldór Grönvold,

aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ