Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga

Reykjavík, 27. febrúar 2015
Tilvísun: 201502-0008


Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (skilyrði fjárhagsaðstoðar), 416. mál
Rétt er að geta þess í upphafi að í lok árs 2012 var gert samkomulag á milli stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaganna um sérstakt virkniátak „Vinnu og virkni - Átak til atvinnu 2013“ fyrir atvinnuleitendur sem voru að ljúka bótatímabili sínu, og sem síðar fékk heitið „Liðsstyrkur“. Hluti af því samkomulagi var að sveitarfélögin fengju skýrari heimildir til að skilyrða fjárhagsaðstoð félagsþjónustu sveitarfélaga við virkni. Alþýðusamband Íslands skilyrti stuðning sinn við þessa heimild til sveitarfélaganna með tvennum hætti. Annars vegar að bótatímabil atvinnuleysisbóta yrði 36 mánuðir eins og samkomulagið fól í sér og hins vegar að settar yrðu skýrar reglur um lágmarksfjárhæð og samræmdar reglur um forsendur fyrir fjárhagsaðstoðinni sem öllum sveitarfélögum yrði skylt að fylgja. Og jafnframt, að slíkar reglur væru ásættanlegar út frá þeim almennu mannúðar- og sanngirnissjónarmiðum sem framfærsluskylda sveitarfélaganna byggir á. Fyrir liggur að þær aðstæður sem nú eru uppi og það frumvarp sem hér er til umsagnar uppfylla hvorugt þessara skilyrða.

Með ákvörðum Alþingis, að tillögu félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur bótatímabil atvinnuleysisbóta verið stytt úr 36 mánuðum í 30. Þetta var gert þrátt fyrir kröftug mótmæli verkalýðshreyfingarinnar og þrátt fyrir þau miklum og alvarlegum áhrifum sem styttingin hefur á hagi og afkomu þeirra atvinnuleitenda sem lengst hafa verið án vinnu. Þegar af þessari ástæðu eru forsendur fyrir stuðning Alþýðusambandsins við það frumvarp sem hér er til umfjöllunar, brostnar.
Hvað varðar þá kröfu Alþýðusambandsins að settar verði skýrar reglur um lágmarksfjárhæð og samræmdar reglur um forsendur fyrir fjárhagsaðstoðinni sem öllum sveitarfélögum yrði skylt að fylgja sveitarfélaganna, þá er ekkert slíkt að finna í frumvarpinu. Það eina sem segir um þetta efni er að „Ráðherra gefur árlega út leiðbeinandi reglur til sveitarstjórna, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, um framkvæmd fjárhagsaðstoðar auk viðmiðunarfjárhæða fyrir fjárhagsaðstoð“. Eftir sem áður er sveitarfélögunum þannig frjálst að ákveða fjárhæð fyrir fjárhagsaðstoðina og skilyrða eins og þeim sýnist.

Í nóvember 2013 gaf Alþýðusamband Íslands út skýrsluna Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Þar kemur fram mikill fróðleikur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna, hvaða skilyrðum hún er háð og hversu ólík hún er á milli sveitarfélaganna. Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a.:

„Umfjöllunin hér að framan sýnir að sveitarfélögin hafa ólíkar reglur um fjárhagsaðstoð. Misjafnt er hvað sveitarfélögin reikna inn í framfærslugrunn sinn, hvernig þau meðhöndla tekjur og áhrif fjölskyldustærðar en með þessu skapast mismunandi reglur sem leiða til þess að upphæð framfærslu verður ekki sú sama frá einu sveitarfélagi til annars. Einstaklingar sem búa við sama vanda eiga því rétt á mismunandi aðstoð allt eftir því í hvaða sveitarfélagi þeir búa.
Eins og sést hér í dæmunum að framan verða einstaklingar og/eða fjölskyldur fyrir nokkrum tekjumissi þegar viðkomandi færast af atvinnuleysisbótum yfir á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Dæmin hér að framan sýna einnig að ef um hjón/sambúðarfólk er að ræða og annar aðilinn er að ljúka bótarétti sínum hjá Vinnumálastofnum verða þau í raun fyrir miklum tekjumissi vegna tekjutengingar maka.
Ekki er haldin skrá um þá einstaklinga sem sækja um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum og þurfa frá að hverfa vegna þess að þeir eru með tekjur yfir viðmiðunarmörkum vegna tekjutengingar maka eða uppfylla ekki ákveðin skilyrði sem sett eru. Það er erfitt að átta sig á því hvert þessir einstaklingar leita eftir fjárhagsaðstoð.
Huga þarf að því að bæta stöðu þeirra sem lokið hafa rétti sínum til atvinnuleysisbóta og detta alfarið út af bótum ef maki þeirra er í launaðri vinnu með tekjur yfir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Mikilvægt er að skilgreina þarfir fyrir alla þá einstaklinga, sem leita til sveitarfélaganna, og bjóða upp á varanleg úrræði.“

Eins og framangreindur texti ber með sér er mjög margt gagnrýnivert hvað varðar fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem er löngu tímabært að taka á. Engin tilraun er gerð til þess í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Einnig má gagnrýna hversu lítill lærdómur er dreginn af reynslu undangenginna ára þegar kemur að virkum vinnumarkaðsaðgerðum og möguleikum langtímaatvinnulausra til þátttöku á vinnumarkaðinum. Sú reynsla er dregin saman með eftirfarandi hætti í skýrslunni:
„Samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og þau verkefni, sem ráðist hefur verið í eftir hrun, staðfesta mikilvægi þess að beita virkum vinnumarkaðsaðgerðum til að draga úr atvinnuleysi og auðvelda fólki, sem misst hefur vinnuna, endurkomu á vinnumarkaðinn. Þær eru jafnframt besta leiðin til að koma í veg fyrir að einstaklingar fullnýti bótarétt sinn í atvinnuleysistryggingakerfinu og þurfi að leita eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.

Markvissar vinnumarkaðsaðgerðir og starfsendurhæfing eru þannig best til þess fallnar að bregðast við og draga úr langtímaatvinnuleysi sem leitt getur til örorku.“
Í ljósi alls þess sem hér hefur komið fram leggst Alþýðusamband Íslands gegn því að frumvarpið verði samþykkt.

Virðingarfyllst,
F.h. Alþýðusambands Íslands
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ