Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof (lenging fæðingarorlofs)

Reykjavík, 26.2 2018
Tilvísun: 201802-0019

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum (lengingu fæðingarorlofs), 98. mál

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar ofangreint frumvarp þar sem lagt er til að fæðingarorlof verði lengt úr níu mánuðum í tólf, þar sem að sjálfstæður réttur hvers foreldris verði fimm mánuðir og að sameiginlegur réttur foreldra verði tveir mánuðir.

ASÍ vísar í skýrslu starfshóps um mótun tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem skilaði af sér tillögum í mars 2016 til þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra. Sambandið átti fulltrúa í þeim hópi þar tillaga var um ofangreind markmið, þ.e. lengingu fæðingarorlofs og skiptingu milli foreldra. Lög um fæðingar- og foreldraorlof frá árinu 2000 með síðari breytingum, hafa annars vegar að markmiði að tryggja barni samvistir við báða foreldra og hins vegar að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

ASÍ leggur ríka áherslu á að þær tillögur sem fram koma í skýrslu starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum nái fram að ganga. Á þetta bæði við um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi, lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra.

ASÍ telur mikilvægt að árétta þá afstöðu sína, að sambandið er alfarið á móti því að lækkun almenns tryggingargjalds komi niður á hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs af tryggingargjaldinu. Endurreisn fæðingarorlofskerfisins og frekari framþróun þess verður hér að hafa forgang.

Alþýðusamband Íslands
Maríanna Traustadóttir,
sérfræðingur