Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Alþingi hefur ekki dulist hver afstaða ASÍ var og er til þeirrar mismununar sem látin er viðgangast í lífeyrismálum þjóðarinnar. Steininn tók úr í árslok 2003 þegar þáverandi ríkisstjórn kynnti frumvarp sem fól í sér stórfellda aukningu á lífeyrisréttindum æðstu embættismanna.

ASÍ boðaði til fjölmenns útifundar á Austurvelli þann 11. desember 2003 og þar var eftirfarandi ályktun samþykkt: “Útifundur, haldinn á Austurvelli 11. desember 2003, mótmælir harðlega framkomnu frumvarpi til laga um starfslokasamning forsætisráðherra og laun og lífeyrisréttindi annarra ráðherra og þingmanna. Fundurinn krefst þess að frumvarpið verði dregið til baka og gerir þá kröfu til þingmanna að þeir sýni sjálfum sér og þjóðinni þá virðingu að falla frá þessum áformum.”

Dagana 19.-29. desember 2003 lét ASÍ einnig gera könnun á viðhorfum landsmanna til lífeyrismála. Spurt var hvort viðkomandi væru ánægð(ir) eða óánægð(ir) með lögin. Alls voru tæp 80% óánægð og innan við 10% ánægð. Þá var nánar spurt út í viðhorf landsmanna til lífeyrismála og spurt: Telur þú að  lífeyrisréttur opinberra starfsmanna sé betri en þeirra sem vinna á almennum markaði, að lífeyrisréttur þeirra sem vinna á almennum markaði sé betri eða að lífeyrisréttur þeirra sem vinna hjá hinu opinbera og á almennum markaði sé hliðstæður eða sá sami? Þrír af hverjum fjórum sögðu lífeyrisrétt opinberra starfsmanna betri, tæp 15% töldu hann sambærilegan og 10% töldu lífeyrisrétt á almennum markaði betri. Þá var spurt hvort viðkomandi væri hlynnt(ur) eða andvíg(ur) kröfu verkalýðshreyfingarinnar um samræmingu lífeyrisréttar fólks á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera. Niðurstaðan var afgerandi. Ríflega 80% sögðust fylgjandi, en 14,5% kváðust andvíg.

Í janúar 2004 sendi síðan miðstjórn ASÍ frá sér eftirfarandi ályktun: “Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur að ekki verði lengur unað við það hróplega ósamræmi sem er á lífeyrisréttindum launafólks á almennum vinnumarkaði og í opinberri þjónustu. Umræðan í þjóðfélaginu undanfarnar vikur um þessi mál og viðhorf almennings til þeirra, færa okkur enn betur heim sanninn um nauðsyn þess að þetta misrétti verði leiðrétt. Miðstjórnin telur að yfirgnæfandi stuðningur almennings við kröfu verkalýðshreyfingarinnar um samræmdan lífeyrisrétt sé mikilvægt vegarnesti í viðræður um  gerð kjarasamninga sem nú eru að hefjast aftur. “

Því frumvarpi sem umsagnar er óskað um, er ætlað að skera umdeildustu þættina af lögum nr. 141/2003 og styður ASÍ samþykkt þess en hvetur Alþingi jafnframt til þess að hefja nú þegar heildarendurskoðun á lífeyrismálum þjóðarinnar með það fyrir augum að uppræta þá miklu mismunun sem nú er látin viðgangast. 

 

F.h. Alþýðusambands Íslands,

_____________________
Magnús M. Norðdahl hrl., 
lögfræðingur ASÍ