Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Reykjavík, 17. desember 2012
 
 
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, 513 mál. 
 
Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, 513 mál. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu var haft ágætt samráð m.a. við Alþýðusamband Íslands um efni þess. Á lokaskrefunum áður en frumvarpið var lagt fram í endanlegum búningi var hins vegar fellt út eitt atriði sem samstaða hafði verið um við undirbúning málsins er varðar stöðu þeirra atvinnuleitenda sem tóku þátt í sérstökum aðgerðum er ætlað var að koma eins og kostur var í veg fyrir uppsagnir í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Hér á eftir er gerð tillaga um að rétta hlut þeirra einstaklinga sem tóku þátt í þessari aðgerð og hafa ekki fengið réttan sinn hlut.
 
Að mati ASÍ eru helstu efnisatriði frumvarpsins eftirfarandi:
 
1.  „Vinna og virkni“ – starfstengd úrræði fyrir þá einstaklinga sem fullnýtt hafa bótarétt sinn
Helsta ástæðan fyrir breytingunum á lögunum er að skapa lagagrundvöll vegna verkefnisins „Vinna og virkni“ hvað varðar starfstengd úrræði fyrir þá einstaklinga sem fullnýtt hafa bótarétt sinn (sem frá 1. janúar 2013 verður 36 mánuði). Svo þetta átak geti orðið verða lagðar til breytingar á 62. gr. laganna þar sem heimildir til að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði eru rýmkaðar svo þær nái til stærri hóps atvinnuleitenda. Þessar breytingar eru í samræmi við samþykkt Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 15. nóvember sl.: 
a. Heimilt verði að veita styrki til fyrirtækja og sveitarfélaga vegna þátttöku þeirra sem hafa fullnýtt rétt sinn innan kerfisins í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum í allt að tólf mánuði frá því að síðasta greiðsla úr Atvinnuleysistryggingasjóði barst hlutaðeigandi. Með þessu er tryggð lagaheimild til að veita styrki vegna þeirra sem hafa fullnýtt sér bótarétt sinn frá 1. september 2012.
b. Fyrir liggur að einhvern tíma tekur að bjóða öllum atvinnuleitendum starfstengd vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á fyrstu mánuðum ársins 2013 og er því mikilvægt að tryggja þeim sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals lengri tíma en 36 mánuði sérstakan biðstyrk í allt að sex mánuði til viðbótar á árinu 2013 en þó aldrei í lengri tíma en samtals 42 mánuði. Þeir sem geta átt rétt á þessum framfærslustyrk eru því þeir sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur í skemmri tíma en 42 mánuði 1. janúar 2013. Um er að ræða biðstyrk sem nemur þeim rétti er hlutaðeigandi atvinnuleitandi átti áður innan kerfisins. Réttur til þessa biðstyrks fellur sjálfkrafa niður þegar atvinnuleitandi hefur fengið boð um starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar endurhæfingar eftir því sem við á.
Í 17. gr. frumvarpsins segir: „Sá sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði 1. janúar 2013 getur átt rétt…“ hafa. Það er ekki ætlunin að takmarka réttinn til biðstyrks með þessum hætti. Orða mætti þessa setningu með eftirfarandi hætti: „Sá sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði á tímabilinu frá 1. janúar til 31. desember 2013 getur átt rétt…“
 
2. Ríkari kröfur um virkni – hert viðurlagaákvæði
Af hálfu samtaka atvinnurekenda var í umræðum um verkefnið „Vinna og virkni“ lögð rík áhersla á að viðurlög vegna þess að atvinnuleitendur neita að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum yrðu hert frá því sem nú er. Þar var bæði vísað til fyrri krafna SA um sama efni og þess sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Niðurstaða hefur orðið um að leggja til þá breytingu sem er að finna í frumvarpinu.
 
3. Réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta skapast við 18 ára aldur
Lagt er til að réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta verði 18 ár í stað 16 ár eins og nú er. Þó getur ávinnsla réttinda hafist við 16 ára aldur eins og nú er, þótt ekki geti komið til greiðslu bóta fyrr en við 18 ára aldur. Þetta þýðir í reynd að ungmenni sem hefur t.d. unnið frá 17 ára aldri og verður atvinnulaust 18 ára getur átt rétt il fullra atvinnuleysisbóta. 
Rökin fyrir þessari breytingu eru einkum þau að frá því að lögin voru sett 2006 hefur aldur vegna greiðslu barnabóta verið hækkaður í 18 ár og þannig framfærsluskylda foreldra færð til þess aldurs. Þá hefur ASÍ sérstaklega látið kanna hversu mörg ungmenni yngri en 18 ára taka atvinnuleysisbætur og hvert bótahlutfall þeirra er. Í ljós hefur komið að þau eru sárafá eða 6 og bótahlutfallið  46% að meðaltali.
 
4. Breyting á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, nr. 51/1995, með síðari breytingum.
Gerð er tillaga um breytingar á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskverkafólks. Breytingarnar eru í samræmi við sátt sem gerð hefur verið við Starfsgreinasamband Íslands sem gæta hagsmuni fiskverkafólks og Samtaka fiskvinnslunnar. Þeim er ætlað að tryggja hagsmuni  fiskverkafólks um leið og dregið er úr stuðningi við fiskvinnslufyrirtæki. Eftir situr að enn á eftir að tryggja fiskverkafólki sambærilegt starfsöryggi og annað launafólk býr við.
 
5. Ýmsar minniháttar lagfæringar
Gert er ráð fyrir ýmsum minniháttar lagfæringum, s.s. varðandi tilkynningar og samskipti við atvinnuleitendur og breytingar á greiðslutímabili atvinnuleysisbóta, sem á að verða almanaksmánuðurinn í stað 20. dag til 19. dags næsta mánaðar.  Þetta á að einfalda alla útreikninga og draga úr mögulegum mistökum varðandi útborgun bóta. Um leið á breytingin að gera greiðslurnar skiljanlegri þeim sem þær eru að fá.
 
Tillaga um viðbót sem bætir rétt þeirra atvinnuleitenda sem voru á hlutabótum á móti hlutastarfi samkvæmt bráðabirgðaákvæði V sem féll niður í árslok 2011
 
Alþýðusambandið gerir tillögu um að bætt verði við frumvarpið bráðabirgðaákvæði sem kemur til móts við þá einstaklinga sem voru á bráðabirgðaákvæði V sem féll niður um síðustu áramót. Tillagan gengur út á að við útreikning á bótatímabili viðkomandi teljist minna en 50% bætur sem ½ bótadag og að þessi réttarbót gildi út árið 2013 (sjá hjálagt tillögu um bráðabirgðaákvæði ásamt greinargerð).
 
Að teknu tilliti til nauðsynlegra breytinga sem gera þarf á 17. gr. frumvarpsins og tillögunnar um að koma til móts við hag þeirra atvinnuleitenda sem tóku þátt í sérstökum aðgerðum er ætlað var að koma eins og kostur var í veg fyrir uppsagnir í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 sbr. bráðabirgðaákvæði V og að henni verði bætt inn í frumvarpið, lýsir Alþýðusamband Íslands yfir fullum stuðningi við það frumvarp sem hér er til umsagnar. Jafnframt leggur ASÍ áherslu á að frumvarpið verði sem fyrst að lögum, þar sem tímasetningar skipta miklu um framkvæmdina.
 
Virðingarfyllst,
 
F.h. Alþýðusambands Íslands
 Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ