Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands o.fl. (skipulag)

Reykjavík, 14. október 2015
Tilvísun: 201509-0016

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands o.fl. (skipulag), 91. mál

Í apríl 2015 sendi ASÍ inn umsögn um sama frumvarp (þingskjal 1004 – 579. mál). Afstaða sambandsins er óbreytt en í þeirri umsögn segir:
„Þróunarsamvinnumál hafa verið málaflokkur sem almenn og breið pólitísk samstaða hefur verið um hér á landi. Íslendingar hafa unnið að þróunarsamvinnu í mjög langan tíma og Þróunarsamvinnustofnun Íslands – ÞSSÍ var sett á laggirnar árið 1971 þegar fyrstu lög um tvíhliða þróunarsamvinnu Íslendinga voru samþykkt á Alþingi. ÞSSÍ hefur markvisst unnið að því að móta sér skýrar verklagsreglur og aðlagast að þeim breytingum sem hafa á undanförnum árum orðið á viðhorfi og nálgun í þróunarsamvinnu. ÞSSÍ hefur lagt áherslu á vægi árangurs og getu stofnunarinnar og starfsmanna til að starfa að árangursmiðaðri þróunarsamvinnu og skipulagi stofnunarinnar breytt til að fylgja eftir þeim markmiðum.

ÞSSÍ hefur unnið eftir þeim markmiðum og skipulagi sem Alþingi hefur sett stofnuninni og sem hafa fengist staðfest og viðurkennt af DAC, þróunarsamvinnunefndar OECD. Í greinagerð með frumvarpinu er vísað í skýrslu/rýni á vegum DAC sem unnin var árið 2013. Það kemur hvergi fram að ástæða sé til þess að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður, heldur þvert á móti er áhersla lögð á að styrkja tengsl ÞSSÍ og utanríkisráðuneytis.

Í greinagerð með frumvarpinu kemur einnig fram að það sé að verulegu leyti byggt á skýrslu sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið árið 2014, – Þróunarsamvinna Íslands, skipulag, skilvirkni og árangur. Í þeirri skýrslu er fjallað almennt um skipulag og framkvæmd þróunarsamvinnu og velt er upp mörgum áhugaverðum tillögum m.a. um nýtingu fjár og mælanlegan árangur. Það vekur furðu ASÍ að svo veigamikil stjórnsýslubreyting skulu vera gerð á grunni skýrslu sem leggur fram margvíslegar tillögur til umræðu og áframhaldandi vinnu.
Einnig má bend á að fyrsta Þróunarsamvinnuáætlun Íslands var sett fram fyrir árin 2013-2016 og því ástæða til að bíða uns meiri reynsla er komin á framkvæmdina og mögulega vankanta áður en róttækar hugmyndir um breytt skipulag er lagt fram.

Eins og fram hefur komið þá hefur ASÍ efasemdir um ágæti þeirra róttæku breytinga sem framangreint frumvarp leggur til. Helstu rök breytinganna samkvæmt frumvarpinu eru meðal annars að með því að færa framkvæmdina á eina hendi er verið að einfalda skipulagið. Betri heildarsýn mun nást yfir málaflokkinn og stefnumótun verði markvissari þegar um einn ábyrgðaraðila er að ræða.
Alþýðusambandið telur að með því að færa framkvæmd þróunarsamvinnu yfir á eina hendi þ.e. alfarið á ábyrgð utanríkisráðuneytis dvíni sá faglegi árangur sem ÞSSÍ hefur náð. Hætta er á að diplómatískar áherslur fari að blandast inn í þróunarsamvinnuna – þ.e. að framlagsríki fari að reka hana með eigin hagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni fátækra ríkja eingöngu.
Alþýðusambandið telur að áður en ákvörðun um að færa alla alþjóðlega þróunarsamvinnu undir utanríkisráðuneytið þurfi að leita svara við mörgum spurningum sem upp koma við lestur skýrslunnar – Þróunarsamvinna Íslands, skipulag, skilvirkni og árangur, sem frumvarpið byggir á að mestu. Helstu spurningar sem upp koma eru;

• Fagleg rök sem liggja til grundvallar áformum um sameiningu?
• Hvort önnur lögmál gilda um þróunarmál en aðra málaflokka í ljósi þess að almennt hefur stjórnsýslan þróast æ meira á þann veg að stefnumörkun og eftirlit með framkvæmd hennar er á hendi ráðuneyta en framkvæmdin sjálf á hendi faglegra stofnana?
• Álit þróunarsamvinnunefndar OECD / DAC á sameiningu. Af hverju er ekki beðið niðurstöðu DAC á skipulagi og árangri þróunaraðstoðar sem fyrirhuguð er árið 2016?
• Hvort athugað hefur verið reynsla annarra ríkja af því að hafa sjálfstæða stofnun utan um þróunarsamvinnu, eins og t.d. Svíþjóð?

Alþýðusamband Íslands leggur til að frestað verði ákvörðun um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands og að ofangreindum spurningum ásamt öðrum verði svarað af fagaðilum áður en endanlega ákvörðun verður tekin.“

F.h. Alþýðusambands Íslands
Gylfi Arnbjörnsson
Forseti ASÍ