Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðför nr. 90/1989 o.fl.

Reykjavík 27.2 2009

200902-0040

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðför nr. 90/1989 o.fl. (322 mál).

Alþýðusamband Íslands styður mjög eindregið framgang þessa máls en leggur til þrjár breytingar.

I

Í 5.gr. frumvarpsins er fyrningarfrestur styttur í tvö ár. Sé fyrningu slitið innan þess frests tekur almennur fyrningarfrestur skv. fyrningarlögum við. Eins og fram kemur í greinargerð með 165.gr. laga 21/1991 þá er gildandi ákvæði í reynd aðeins virkt gagnvart þeim einstaklingum sem verða gjaldþrota því lögaðilar ljúka tilvist sinni við gjaldþrot. Með þessum hætti hallar mjög á einstaklinga í greiðsluvandræðum. Auk þess hvetur ákvæðið eins og það stendur kröfuhafa til þess að krefjast persónuábyrgða vegna rekstrarskulda lögaðila þegar betur færi að fé væri lánað vegna mats á greiðslugetu lögaðilans. Jafnframt hvetur ákvæðið eins og það er til óeðlilegra félagsstofnana og kennitöluflakks. ASÍ leggur til, að kröfur í gjaldþrotum einstaklinga verði meðhöndlaðar með sama hætti og kröfur á gjaldþrota lögaðila og afskrifaðar að fullu í kjölfar gjaldþrotameðferðar. Ákvæðið er brýnt m.a. vegna mikillar skuldsetningar vegna kaupa á íbúðarhúsnæði á undanförnum árum og vegna kaupa á neysluvöru með gengistryggðum lánum. Líklegt er að stór hópur einstaklinga sem tók bæði gengistryggð og verðtryggð lán verði gjaldþrota á næstu mánuðum og misserum og óásættanlegt að þeim hópi verði bundnar drápsklyfjar skulda, en stór hluti hans er sá hópur sem íslensku samfélagi er nauðsynlegur til uppbyggingar samfélagsins á næstu árum.

Lagt er til að 2.mgr. 165.gr. laga nr. 21/1991 hljóði svo:

Einstaklingur sem verður gjaldþrota, ber ekki ábyrgð á þeim skuldum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskiptin. Ef kröfu hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu hennar slitið gagnvart öðrum en þrotamanninum og byrjar nýr fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið, ef krafan var viðurkennd, en ella á þeim degi sem kröfunni var lýst.

2

Í 6.gr. frumvarpsins er lagt til skiptastjóri geti heimilað skuldara með samþykki veðhafa að dvelja í allt að 12 mánuði í íbúðarhúsnæði sem búinu tilheyrir. Ákvæðinu er ætlað að gilda tímabundið. ASÍ telur að of skammt sé gengið og að 12 mánaða afnot gegn eðlilegu endurgjaldi eigi að mega heimila án samþykkis veðhafa, eftir atvikum skv. ákvörðun héraðsdóms. Jafnframt verði ekki um tímabundið ákvæði að ræða heldur varanlegt. Að öðru leyti verði ákvæðið óbreytt. Mikilvægt er að tryggja þennan rétt skuldara því ætlunin er að draga úr neikvæðum afleiðingum gjaldþrots á fjölskyldu þrotamanns á þann hátt að henni verði ætlaður rúmur tími til þess að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Með meira svigrúmi eru líkur á því að minni röskun verði á skólagöngu og félagstengslum barna vegna bráðra flutninga og fjölskyldunni almennt veitt meira svigrúm til þess að vinna úr því áfalli sem gjaldþroti og eignamissi fylgir óhjákvæmilega. Óásættanlegt er að þessir mikilvægu hagsmunir skuldara og fjölskyldu hans víki fyrir hagsmunum lánadrottna eins og nú standa sakir.

3

ASÍ leggur til að eftirfarandi ákvæði verði tekið upp í lögin um nauðungarsölu nr. 90/1991:

Við 4.mgr. 50.gr. bætist eftirfarandi málsliður:

„Þó kröfu hafi réttilega verið lýst er sýslumanni óheimilt að taka til greina innheimtukostnað kröfuhafa sem reiknast af gjaldfelldri fjárhæð skuldar.“

Stærstur hluti þeirra skulda sem innheimtar eru með nauðungaruppboði á fasteign eru lán sem tekin hafa verið til langs tíma. Við greiðslufall eða vegna fullnustukrafna annarra kröfuhafa eru slíkra langtímaskuldir gjaldfelldar. Ákvæði þeirra viðskiptabréfa sem í hlut eiga koma ekki í veg fyrir að takmörk séu sett hvernig útreikningi innheimtukostnaðar skuli háttað. Um getur verið að ræða háar fjárhæðir.

Dæmi: Höfuðstóll veðskuldar er að eftirstöðvum 40.000.000.- Ógreiddar og gjaldfallnar afborganir eru 1.200.000.- Innheimtukostnaður skv. hefðbundinni gjaldskrá lögmanns vegna innheimtu af á 1.200.000.- eru kr. 109.850. – auk virðisaukaskatts meðan kostnaður af innheimtu 40.000.000.- eru kr. 1.347.250.- auk virðisaukaskatts. Til viðbótar báðum kröfum reiknast milli 6 og 7 þúsund krónur án virðisaukaskatts fyrir hvert bréf og hvert þinghald hjá sýslumanni auk útlagðs kostnaðar eftir því sem við á. Ljóst er að verulegir hagsmunir skuldara eru fólgnir í því að takmörk verði sett á ofangreinda gjaldtöku. Sérstaklega þegar haft er í huga að skuldari hefur lítil ef nokkur úrræði til þess að verja sig gegn óhóflegum innheimtukostnaði fyrr en eftir að fasteign hefur þegar verið seld nauðungarsölu.