Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum (stytting vinnutíma)

Reykjavík, 25. 11 2018
Tilvísun: 201811-0008

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum (stytting vinnutíma), 181. mál

Í upphafi er skal bent á að stytting dagvinnutíma án skerðingar á launum er ein af helstu kröfum allra aðildarsamtaka Alþýðusambands Íslands í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú eru hafnar.
Á 43. þingi ASÍ sem haldið var í lok október sl. var vinnutími, stytting hans og skipulag vinnunnar eitt af helstu umræðuefnunum og krafan um styttingu vinnutímans þar efst á blaði. Þannig segir í stefnu ASÍ sem samþykkt var á þinginu um tækniþróun og skipulag vinnunnar:

„Launafólk gerir kröfur um styttingu dagvinnutíma og minni yfirvinnu án skerðingar á launum. Tækniframfarir, aukin framleiðni og skipulagning vinnunnar gera vinnutímastyttingu og sveigjanlegri vinnutíma að raunverulegum kosti. Launafólk á heimtingu á mannsæmandi launum fyrir hóflega dagvinnu. Að dagvinnulaun dugi launafólki til að framfleyta sér og fjölskyldum sínum.“

Þá segir að stefna ASÍ sé að:
• Stytta á dagvinnutíma og draga úr yfirvinnu án skerðingar á launum.
o Hafna á öllum hugmyndum um aukinn sveigjanleika varðandi skilgreiningu á dagvinnutímabilinu.
o Í ráðningarsamningum skal kveða skýrt á um vinnutíma og fyrirtæki virði frítíma starfsmanna.
• Lögbinda ber styttingu vinnutímans til að tryggja réttindi alls launafólks

Loks segir um verkefni ASÍ að þau séu að:
• Leiða umræðu og stefnumótun innan verkalýðshreyfingarinnar um aðgerðir og útfærslu á styttingu vinnutíma sem tekur mið af ólíkum aðstæðum og væntingum á vinnumarkaði.
o Leggja áherslu á að skýr mörk séu dregin milli vinnutíma og frítíma launafólks.
Sambærilegar áherslur er að finna í stefnu ASÍ um jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs.

Afstaða Alþýðusambandsins er því skýr:
• Gerð er krafa um að vinnutíminn verði styttur og er þá vísa til 40 stunda vinnuvikunnar, en ekki bara heildarvinnutímans. Þessi stytting verði án skerðingar á launum. Jafnframt að skýrt verði kveðið á um í ráðningarsamningum hver vinnutíminn er og þá um leið rétt starfsmanna til einkalífs.
• Krafan er að Alþýðusambandið í samráði við aðildarfélögin leið vinnu varðandi útfærslu á styttingu vinnutímans sem tekur mið af ólíkum aðstæðum og væntingum á vinnumarkaði.
• Binda ber styttingu vinnutímans í lög til að tryggja réttindi alls launafólks í þeim efnum.

Í ljósi framanritaðs styður Alþýðusamband Íslands að stytting vinnutíma verði sett í lög. Jafnframt er óskað eftir því að Alþýðusambandið fái með beinum hætti aðkomu að löggjöfinni til að tryggja að sjónarmið og áherslur launafólks komist að fullu til skila við slíka lagasetningu.

Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ