Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. nóvember 2010 
Tilvísun: 201010-0019

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, 13. mál.

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, 13. mál.

Í frumvarpinu er lagt til að heimild til verðmiðlunar skv. 19. gr. búvörulaga svo og heimild til opinberrar verðtilfærslu skv. 22. gr. sömu laga verði báðar felldar niður. Ekki er hins vegar lagt til að heimild til „frjálsrar“ verðtilfærslu skv. 13. gr. laganna breytist neitt.

Það er skoðun ASÍ að breytingar á styrkjakerfi landbúnaðarins eigi að felast í umbreytingu úr tollvernd, framleiðslutengdum styrkjum og opinberri verðlagningu yfir í beinar óframleiðslutengdar greiðslur. Á meðan aðhald með landbúnaði í gegnum aukinn innflutning og ákvæði samkeppnislaga er verulegum takmörkunum háð, eins og nú er, þá er nauðsynlegt að eftirlit sé áfram í höndum verðlagsnefndar sem jafnframt hafi skýr úrræði til að tryggja ásættanlegt verð á brýnum neysluvörum til almennings.

Í þessu ljósi leggur ASÍ til að í stað þess að afnema opinbera verðtilfærslu (sem skv. núgildandi búvörulögum lýtur eftirliti verðlagsnefndar og ber einnig að telja fram sem opinberan stuðning við íslenskan landbúnað á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar) verði hinar svokölluðu „frjálsu“ verðtilfærslur (sem aðeins þarf að leggja fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar) takmarkaðar eða afnumdar.

Virðingarfyllst,
Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ