Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof

Reykjavík, 20. apríl 2011

Tilvísun: 201104-0037

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof,
með síðari breytingum, 748. mál.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu eru breytingarnar sem lagðar eru til þríþættar:

Í fyrsta lagi er verið að mæta athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA við 11. mgr. 13. gr. laganna þar sem kveðið er á um samlagningu starfstímabila foreldra er flytjast milli aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Eftirlitsstofnun EFTA telur að skilyrði um þátttöku á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili sé of langur tími í þessu sambandi. Er því í frumvarpinu lagt til að meginreglan verði áfram sú sama en heimilt verði að taka tillit til starfstímabila foreldris á ávinnslutímabilinu sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru EES ríki enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt til fæðingarorlofs samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlofs. Þá er lagt til að hafi foreldri verið skemmri tíma á innlendum vinnumarkaði en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skuli Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttur haf skapast til fæðingarorlofs vegna starfa foreldris annars staðar á EES svæðinu.

Í öðru lagi er lagt til að innleidd verði hér á landi tilskipun ráðsins 2010/18/EB, um framkvæmd endurskoðaðs rammasamnings aðila vinnumarkaðarins á Evrópuvísu um foreldraorlof. Tilskipunin felur í sér lengingu foreldraorlofs úr þrettán vikum í fjóra mánuði fyrir hvort foreldri fyrir sig.

Í þriðja lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, meðal annars í því skyni að skýra betur tiltekin ákvæði sem þótt hafa óskýr við framkvæmd laganna.

Sú tillaga sem nú liggur fyrir um breytingar á lögunum um fæðingar- og foreldraorlof er unnin í ágætu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

Alþýðusamband Íslands leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

 

Virðingarfyllst,

Halldór Grönvold,

aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ