Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (hækkun greiðslna og lenging)

Reykjavík, 7. desember 2012
 
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (hækkun greiðslna og lenging), 496 mál.
 
Frumvarpið kemur í framhaldi af yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar og greinargerð með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013.
Rétt er að halda til haga áður en lengra er haldið að Alþýðusamband Íslands hefur gagnrýnt ýmsar þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögunum síðustu ár. Breytingar sem fela í sér að þak á upphæð fæðingarorlofsgreiðslna hefur ítrekað verið lækkað og hlutfall greiðsla úr fæðingarorlofssjóði skert svo dæmi séu nefnd.  Alþýðusambandið hefur bent á að miklar skerðingar á greiðslum í fæðingarorlofi síðustu misseri hafa skapað verulega hættu á að bakslag verði hvað varðar þá mikilvægu réttarbót sem lögin fólu í sér í upphafi. Þannig liggur fyrir að þátttaka feðra í töku fæðingarorlofs hefur minnkað að undanförnu og skerðingarnar hafa skapað ýmis konar vanda fyrir foreldra nýfæddra barna og sem hafa ættleitt börn eða tekið í varanlegt fóstur.
 
Í þeim drögum að frumvarpi sem nú liggja fyrir eru tekin fyrstu skrefin til að færa réttindi í fæðingarorlofi aftur í fyrra horf og síðan að bæta þann rétt enn frekar. Þar er í mikilvægum atriðum komið til móts við þau sjónarmið sem ASÍ hefur sett fram, bæði hvað varðar efni og forgangsröðun. Efnisþættir frumvarpsins eru eftirfarandi:
 
1. Lagt til að hámarksgreiðslan (þakið) á mánuði hækkuð úr 300 þús. kr. í 350 þús. kr. og að miðað verði við 80% af meðaltali heildarlauna foreldra á viðmiðunartímabilinu.
2. Gert er ráð fyrir að réttur til fæðingarorlofs falli niður við 18 mánaða aldur barns í stað 36 mánaða. Með þessu er verið að færa þetta ákvæði laganna til fyrra horfs.
3. Lagt er til að réttur foreldra alvarlega veikra eða fatlaðra barna verði bættur þannig að hætt verði að miða við lengd sjúkrahúsdvalar þegar tekin er ákvörðun um lengingu enda fá foreldrar að fara heim með nýfædd börn sín innan við sólarhring frá fæðingu; koma því alvarlegir sjúkdómar eða fötlun oft ekki í ljós fyrr en eftir að börn eru komin heim í fyrsta skiptið. Um er að ræða lengingu á fæðingarorlofi í allt að 7 mánuði.
 
Framangreindar breytingar eiga að taka gildi frá og með 1. janúar 2013 og eiga við um börn sem fæðast (eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur) frá og með þeim tíma.
Um þær er það að segja að Alþýðusambandinu var fyrir stuttu kynnt að hámarksgreiðslan yrði hækkuð í 400.000 kr. sem sambandið taldi ásættanlegt. Þegar frumvarpið kom síðan fram á Alþingi var búið að lækka hámarkið í 350.000 kr. Að mati Alþýðusambandsins er hér um að ræða of lága upphæð, sem skapar hættu á að sú þróun haldi áfram sem verið hefur undangengin misseri.
 
4. Lögð er til lenging á fæðingarorlofi úr níu í tólf mánuði á árunum 2014, 2015 og 2016, um einn mánuð á hverju ári. Þegar lengingin er að fullu komin til framkvæmda verður sjálfstæður réttur mæðra fjórir mánuðir, sjálfstæður feðra fjórir mánuðir og sameiginlegur/skiptanlegur réttur 4 mánuðir.
 
Varðandi lenginguna orlofsins er farin sambærileg leið eins og þegar fæðingarorlofið var lengt með nýjum lögum árið 2000, en þá var fæðingarorlof feðra lengt í áföngum. Það er jafnframt ljóst að þessi aðferð byggir á því að almenn og þverpólitísk sátt sé um efnið.
Í ljósi þess sem að framan segir lýsir Alþýðusambandið stuðningi við frumvarpið, enda verði í meðförum Alþingis tekin ákvörðun um að setja hámarksgreiðsluna (þakið) í 400.000 kr.
 
Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ